Annríki hefur verið hjá tryggingafélögunum eftir vatnsveðrið undanfarna daga og hafa margir orðið fyrir tjóni.
Snorri Guðmundsson, hópstjóri eignatjóna hjá VÍS, segir að flest tjón sem verða vegna veðurs séu ekki bótaskyld. Oft sé tjón vegna flóðs en tjón á nýlegum húsum séu oftast vegna lélegs frágangs í kringum glugga og þök. Klæðningarnar sjálfar haldi yfirleitt vel en veikleikinn sé ef frágangurinn er ekki fullnægjandi. Þess háttar tjón sé ekki bætt af tryggingafélögunum, þau bæti tjón sem verði vegna bilana eða galla á lögnum, en ekki vegna utanaðkomandi leka nema hann verði eftir foktjón.
Spurður hvort beri meira á leka í nýjum byggingum segir Snorri að verstu mannvirki Íslandssögunnar hafi verið byggð frá árinu 2000 til dagsins í dag og vísar þá helst til lagna í nýbyggingum.
„Byggingariðnaðurinn hefur breyst svo mikið á þessum árum. Menn eru hættir að koma saman til að búa til gott mannvirki og hugsa bara um sjálfan sig og að komast sem „billegast“ frá hlutunum.“
Er eitthvað í regluverki sem hefur breyst eftir árið 2000 sem hefur orðið til þess að gæði bygginga hafa minnkað?
„Það er fyrst og fremst vegna þess að nú er það hraðinn sem ræður ferðinni. Það er mikil pressa á öllum að klára verkið hratt og sem ódýrast. Hugarfarið var allt öðruvísi hér áður fyrr. Þá hafði píparinn skoðun á því hvernig múrarinn vann verkið og múrarinn hafði skoðun á því hvernig píparinn vann og saman fundu þeir bestu leiðirnar.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag