„Tíðindin eru kannski þau að meirihlutinn fór ekkert í grafgötur með skoðanaágreining sinn í flugvallarmálinu þar sem hver Framsóknarmaðurinn á fætur öðrum steig í pontu og lýsti stuðningi við tillögu okkar. En það eru einnig tíðindi að Samfylking og Píratar þurfa að kyngja því að tillaga um að flugvöllurinn verði út skipulagstímabilið (til 2040) fái frekari skoðun,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Á fundi borgarstjórnar í kvöld var samþykkt að vísa tillögu Sjálfstæðisflokksins um atvinnuuppbyggingu á flugvellinum í Vatnsmýri til umhverfis- og skipulagsráðs.
„En við erum svo sem vön því að þegar upp kemur ágreiningur í meirihlutanum þá er málunum vísað í nefnd,“ segir Hildur.
Hún segir málum áður hafa verið vísað á hinn pólitíska vettvang og svo fái þau ekki framgang inni í nefndunum sem setja málin í farveg.
„Við munum fylgja málinu vel eftir,“ segir Hildur.
Hún segir óljóst hvort meirihluti sé fyrir málinu í borgarstjórn. Þannig hafi Viðreisn og Vinstri grænir, t.a.m. ekki tjáð sig mikið um málið.
„Það er alveg sama hvort fólki finnist að flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni eða hvort það telji hann eiga að víkja. Veruleikinn er sá að það er ekki búið að finna stað fyrir nýja miðstöð innanlandsflugs og Hvassahraun er út úr myndinni sem stendur. Flugvöllurinn verður því óhjákvæmilega staðsettur í Vatnsmýri að minnsta kosti út skipulagstímabilið, og á meðan hann er þar þá verðum við auðvitað að tryggja rekstrar- og flugöryggi á svæðinu. Það er raunsæismatið á þessu máli. En það eru ekki allir tilbúnir að líta málið raunsæjum augum.“