Sektir innheimtar áfram þrátt fyrir afplánun

Auk sektargreiðslnanna voru þeir Snorri og Sverrir dæmdir til fangelsisvistar …
Auk sektargreiðslnanna voru þeir Snorri og Sverrir dæmdir til fangelsisvistar í tvö ár en fullnustu refsingarinnar var frestað og mun falla niður að þremur árum liðnum haldi þeir almennt skilorð. mbl.is/Karítas

Eiríkur Elís Þorláksson, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, segir í samtali við mbl.is að innheimta á þeim háu sektum sem tvímenningunum í stóru tóbakssmyglmálinu voru gerðar, geti átt sér stað áfram eftir fangelsisvist, svokallaða vararefsingu geti þeir ekki greitt.

Dómnum samkvæmt munu Snorri Guðmunds­son, oft kennd­ur við rafrettu­versl­un­ina Póló, og Sverr­ir Þór Gunn­ars­son, sem kennd­ur hef­ur verið við rafrettu­versl­un­ina Drek­ann þurfa að sitja sektirnar af sér í 360 daga í fangelsi.

„Eftir að dómurinn gengur fer fram fullnusta á refsingunni, að því gefnu að málinu verði ekki áfrýjað, og ef þeir greiða ekki eftir endanlegan dóm fer þessi fullnusta fram af hálfu ríkisins.

Fangelsi þýðir ekki alltaf fangelsi

Svo er annað mál hvort þeir sitji yfir höfuð inni eða hvernig fullnustan á því verður. Hvort það sé hreinlega bara samfélagsþjónusta í framkvæmd.

Þó það standi 360 dagar í fangelsi í dómsorði er því ekki þar með sagt að þeir sitji í fangelsi þann tíma.“

Eiríkur segir þá að ef tekst að innheimta að hluta geti það haft áhrif á tímalengd vararefsingarinnar og að dögunum geti þá fækkað.

Eiríkur Elís Þorláksson, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Eiríkur Elís Þorláksson, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Þrotamaður beri áfram ábyrgð á skuldum

Dómurinn gerði Snorra og Sverri að sæta upptöku á bæði umtalsverðu lausafé og ýmiss konar fasteignum.

Eiríkur segir aðspurður að við gjaldþrot beri þrotamaður áfram ábyrgð á skuldum sínum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti en það fari eftir fyrningarreglum hvað hægt sé að halda kröfunni lengi uppi.

Auk sektargreiðslnanna voru þeir Snorri og Sverrir dæmdir til fangelsisvistar í tvö ár en fullnustu refsingarinnar var frestað og mun falla niður að þremur árum liðnum haldi þeir almennt skilorð.

Með almennu skilorði segir Eiríkur að átt sé við að haldi þeir sig frá brotum sem geti varðað fangelsisvist.

Hóflegar sektir?

Sektargreiðslan sem Snorra og Sverri er gert að greiða í ríkissjóð er nokkuð há eða sem nemur 1,1 milljarði króna á mann, alls 2,2 milljarðar vegna brotanna.

Eiríkur bendir á að refsiramminn segi til um að sá brotlegi skuli sæta sektum sem nemi að lágmarki tvöföldum en að hámarki tíföldum aðflutningsgjöldum af því tollvirði sem dregið var undan.

„Dómarinn metur það þannig að hann megi hafa refsinguna tvöfalda til tífalda og ákveður að hafa hana þrefalda,“ segir hann.

Snorri og Sverrir komust hjá greiðslu gjalda upp á tæplega 741 milljón króna og hefði refsingin því getað verið á bilinu 1.482 milljónir til rúmlega 7 milljarðar króna. Í ljósi umfangsins gæti einhver talið að með sektargreiðslunum sem þeim voru gerðar hafi verið gætt meðalhófs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert