Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson eru nú staddir í Landsrétti þar sem aðalmeðferð í hryðjuverkamálinu svokallaða stendur yfir.
Tæplega eitt ár er síðan tvímenningarnir voru sýknaðir af ákæru í Héraðsdómi Reykjavíkur sem sneri að tilraun til hryðjuverka.
Dómur héraðsdóms taldi það hafa verið rétta ákvörðun að handtaka mennina, en að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna „ótvírætt“ að þeir hefðu verið að undirbúa hryðjuverk.
Mennirnir voru hins vegar dæmdir fyrir vopnalagabrot. Sindri var dæmdur í tveggja ára fangelsi og Ísidór hlaut átján mánaða dóm.
Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu síðasta vor. Krafist er sakfellingar fyrir hryðjuverkahluta þess og sakfellingar í þeim hluta málsins sem snýr að vopnalagabroti, auk þess er farið fram á refsiþyngingu.
Aðalmeðferð málsins stendur fram á fimmtudag. Skýrslutaka yfir Sindra fer fram í dag og á morgun verður tekin skýrsla af Ísidóri.
Greint verður frá aðalmeðferð hryðjuverkamálsins í Landsrétti á mbl.is.