„Ég skammast mín alveg verulega, vil að það komi fram, annars þakka ég fyrir mig,“ sagði Sindri Snær Birgisson í lok skýrslutöku sinnar í aðalmeðferð Landsréttar í hryðjuverkamálinu í dag.
Tæplega ár er frá því að Sindri og Ísidór Nathansson voru sýknaðir af ákæru sem sneri að tilraun til hryðjuverka í Héraðsdómi Reykjavíkur. Sindri er nú 28 ára gamall nemi í rafvirkjun og tveggja barna faðir.
Eftir að dómari þakkaði honum fyrir skýrslutökuna bað Sindri um að fá að bæta einu við sem varðaði dóm héraðsdóms.
Í dóminum segir varðandi vopnalagabrot tvímenninganna að Sindri og Ísidór hefðu „ekki sýnt neina iðrun“.
Sindri sagði fyrir Landsrétti um málið í heild að um væri að ræða mestu mistök sem hann hefði gert og að hann væri fullur eftirsjá.
Aðalmeðferðin hófst á því að tæplega sex klukkustunda upptaka af skýrslutöku Sindra í héraðsdómi frá 8. febrúar í fyrra var spiluð. Nánar er hægt að lesa um hana hér að neðan.
Skýrslutakan í Landsrétti tók einungis rúman hálftíma. Spurður hvort hann vildi breyta eða bæta einhverju við fyrri framburð sagðist Sindri hafa svarað eins vel og hann gat á sínum tíma.
Saksóknari spurði Sindra hvort hann hefði notast við forritið Telegram, en hann sagðist í héraði ekki hafa notað það forrit.
Sindri sagðist hafa verið með forritið í símanum sínum en ekki notað það að staðaldri né verið í samskiptum við Ísidór þar. Hann játaði þó að þeir ættu báðir aðgang að Telegram.
Spurður hvort hann hefði verið gjarn á að eyða samskiptum sínum svaraði Sindri að hann hefði stundum eytt gömlum samskiptum á samskiptaforritum sem hann notaði.
Saksóknari spurði þá hvort hann hefði eytt samskiptum sínum við Ísidór og svaraði Sindri neitandi. Hann sagðist halda að þau væru öll í málsgögnum.
Spurður hvort hann hefði verið bannaður af einhverju samskiptaforriti svaraði Sindri einnig neitandi. Hann sagði að það gæti verið að Ísidór hafi verið bannaður af Discord vegna blótsyrða sem algrímið greindi.
Saksóknari bar undir Sindra skilaboð sem hann sendi á Ísidór þar sem hann sagðist hafa verið „í léttu geðrofi“, hefði verið kominn í Hafnarfjörð með „AR“ og var að spá í að biðja Ísidór um að koma með „FGC“.
AR-15, AK-47 og CSZ-557 rifflar fundust heima hjá Sindra. Þá þrívíddaprentuðu þeir FGC-skotvopn.
Sindri sagðist ekki muna eftir þessum samskiptum, enda væru þrjú ár síðan þau áttu sér stað. Þá sagðist hann ekki hafa farið vopnaður í Hafnarfjörð.
„Þetta spjall er út úr kortinu,“ sagði Sindri í dómsal og sagðist skammast sín fyrir mikið af samskiptunum.
Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra, spurði hvort að Sindri hefði haft aðgang að skotvopnunum, sem voru skráð á föður hans, þannig að hann gæti keyrt með þau. Sindri svaraði neitandi.
Að lokum rakti Sindri persónulega hagi sína eftir að hann var handtekinn í september 2022, þá 25 ára gamall.
Stuttu eftir að honum var sleppt sótti hann um starfsendurhæfingu, sem hann síðan sótti hjá Virk ásamt sálfræðimeðferð.
Sindri fór í rafvirkjanám og vonast til þess að klára það nám í sumar. Hann áætlar síðan að taka háskólagrunn til þess að geta lært rafmagnsverkfræði.
Fyrir tæpu ári síðan lýsti Sindri tímanum frá handtöku sem ömurlegum. Hann hefði glímt við þunglyndi en fyrir dómi í dag sagði hann að sér líði aðeins betur.
Sindri sagði að um tíma hefði hann hugleitt að flytja til útlanda en að sú afstaða væri nú breytt. Hann er í sambúð og á tvö börn.
Á morgun verður tekin skýrsla af Ísidór og lýkur aðalmeðferð málsins síðan á fimmtudag.