Dílaskarfshreiðrum fjölgaði um 30% milli 2023 og 2024 og toppskarfshreiðrum um tæp 42%.
Talning Náttúrufræðistofnunar Íslands á dílaskarfs- og toppskarfshreiðrum leiddi þetta í ljós. Skarfahreiðrum hafði fækkað mikið árið á undan.
Í tilkynningu á vef NÍ segir að árið 2023 hafi tvær óvenjudjúpar lægðir gengið yfir vestanvert landið 20.-21. og 23.-25. maí og valdið djúpum öldum og brimi sem eyddi heilu skarfabyggðunum sem voru áveðurs og fyrir opnu hafi.
„Um svipað leyti vakti það athygli að mikið magn dauðra sjófugla af ýmsum tegundum, mest af lunda, rak upp víða í Faxaflóa. Það sást hins vegar lítið af uppreknum skörfum meðal dauðu fuglanna. Í flugtalningu þann 27. maí 2023 varð fyrst ljóst að skarfar höfðu lent í ógöngum þegar lægðirnar gengu yfir 2-5 dögum áður,“ segir á vef NÍ.
Talning skarfshreiðra í maí 2024 sýndi að þrátt fyrir að margar skarfabyggðir hefðu skolast í burtu árið 2023 höfðu þessir atburðir lítil varanleg áhrif á skarfastofnana. Þrátt fyrir tjón á hreiðrum, eyðingu eggja og unga virðist sem flestir fullorðnir fuglar hafi lifað af og tekið virkan þátt í varpinu 2024.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag