Skerpa þarf á ákveðnum reglum til að fá skýrari lagaheimildir til upptöku ávinnings af afbrotum, meðal annars þegar kemur að haldlagningu og kyrrsetningu fjármuna sem sýnt hefur verið fram á að urðu til í tengslum við afbrot. Þetta segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra, en hún boðar nýtt frumvarp í þessa veru í mars.
Samkvæmt þingmálaskrá er um að ræða frumvarp til laga um breytingar á lögum um meðferð sakamála, þar sem markmiðið er að ná betri árangri í að endurheimta ávinning af ólöglegri glæpastarfsemi.
„Í stóru myndinni er þetta kannski bara breytt landslag afbrota og yfirvöld á Íslandi, eins og önnur ríki, standa frammi fyrir nýjum veruleika þar um,“ svarar dómsmálaráðherrann er hún er innt eftir nánari útskýringu á frumvarpinu.
Segir hún að verið sé að skerpa á ákveðnum reglum til að fá skýrari lagaheimildir til upptöku ávinnings af afbrotum og nefnir sem dæmi haldlagningu og kyrrsetningu fjármuna sem sýnt væri fram á að hefðu orðið til í tengslum við afbrot.
Þá myndi löggjöfin einnig gera regluverkið hliðstætt regluverkum annarra ríkja t.d. varðandi tölvubrot.
Segir Þorbjörg frumvarpið einnig vera lið í að bæta úr því að Ísland hafi fengið ágjöf í skýrslu alþjóðlega fjármálaaðgerðahópsins (FATF).
„Ísland lenti á svona tossalista varðandi aðgerðir gegn spillingu og þetta er bara liður í því að bæta þar úr.“
Vísar Þorbjörg einnig til þess að Ísland sé hluti af Búdapest-samningnum. Er það samningur Evrópuráðsins um tölvubrot sem var undirritaður í Búdapest árið 2001.
„Þetta er svona spurning um það að ríki sem ætla t.d. að láta taka sig alvarlega um aðgerðir gagnvart skipulagðri brotastarfsemi, netbrotum og annað hafi heimildir sem standast samanburð til þess að geta brugðist við í þeim tilvikum sem svona mál koma upp í,“ segir Þorbjörg og bætir við:
„Þetta er heilmikil flóra af brotum.“