Eldingaveður er nú á höfuðborgarsvæðinu og hefur mbl.is borist fjöldi ábendinga um að eldingum hafi lostið niður.
Hér má sjá kort á vef Veðurstofunnar af eldingum sem slegið hefur niður undanfarinn sólarhring.
Á vef almannavarna um eldingar segir að rétt viðbrögð við þrumuveðri séu að koma sér strax í skjól.
Séu menn utandyra ber að forðast vatn, hæðir í landslagi og berangur, auk þess sem forðast á að vera nálægt trjám. Forðist alla málmhluti svo sem, raflínur, girðingar, vélar, tæki o.s.frv.
Forðist að vera í nánd við loftlínur, hávaxin tré, staura, þvottasnúrur, rafmagnsvirki, möstur og landbúnaðartæki hvers konar. Varist jafnframt mýrlendi, vötn og læki.
Innandyra skal hafa í huga að halda sér fjarri útidyrum, gluggum og lagnakerfum.
Forðast skal að nota tæki sem eru í sambandi við rafmagn. Ef farsími er notaður þá varist að hafa hann í sambandi við hleðslu hvort sem er í bifreið eða innan húss.
Takið öll rafmagnstæki s.s. tölvur, rafmagnsverkfæri, ísskáp og sjónvarpstæki úr sambandi frá straumgjafa og loftneti. Notið inniloftnet sé þess kostur. Munið einnig að að aftengja brynningartæki, mjaltarkerfi og rafmagnsgirðinar þar sem það á við.
Ef leitað er skjóls í bifreið þarf að hafa hurðir og glugga lokaða.