Egill Aaron Ægisson
„Villtustu spárnar voru náttúrulega að þeir myndu ganga lengra en ég tel þetta bara raunhæft núna,“ segir Finnbjörn Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, um stýrivaxtalækkun Seðlabankans.
Segist Finnbirni lítast ágætlega á lækkunina og að hún sé í takt við þær væntingar sem sambandið hafði.
„Við litum svo á að þetta væri allavega það sem þeir yrðu að gera vegna þess að þetta er ekkert annað en „status quo“ miðað við síðustu lækkun. Verðbólgan hefur lækkað um hálft prósent og þeir eru að lækka um hálft prósent þannig við erum bara á sama stað.“
Finnbjörn segir að rök hefðu verið fyrir að hægt væri að ganga lengra í lækkuninni en segist hann jafnframt skilja að Seðlabankinn hafi viljað hafa varann á þar sem undirliggjandi verðbólga sé aðeins að hreyfast.
„Þannig að því leytinu til þá er ég bara þokkalega sáttur við þessa lækkun.“
Þá lítur Finnbjörn svo á að reglulegar vaxtalækkanir verði fram á árið.
„Við horfum til þess, þrátt fyrir að verðbólgan sé 4,6% núna, að hún verði komin niður undir 3% á miðju ári og það eru nokkrar vaxtalækkanir þangað til þannig að ég lít svo á að þetta verði bara takturinn allavega fram á mitt þetta ár.“