Talsvert hefur verið um útköll björgunarsveita á landinu vegna foktjóns. Nokkrar björgunarsveitir höfuðborgarsvæðisins hafa verið kallaðar út og eru það helst þakplötur, grindverk og aðrir lausamunir sem eru að fjúka.
Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
Hann segir að útköllin séu öll beinar afleiðingar af vindi og að þau séu rétt að byrja, ef marka megi veðurspána framundan. Björgunarsveitarfólk um allt land er því í viðbragðsstöðu.
Á þriðja tímanum í dag voru björgunarsveitir á Suðurlandi kallaðar út vegna rútu sem hafnaði utan vegar á Hellisheiði. Jón segir að í kringum 20 manns hafi verið í rútunni en að ekki liggi fyrir hvort einhver slys hafi orðið á fólki.
Rauðar veðurviðvaranir hafa verið gefnar út fyrir allt landið og hefur hættustigi almannavarna verið lýst yfir. Flestar viðvaranirnar hafa þegar tekið gildi og taka svo aftur gildi í fyrramálið.
Margir vegir á landinu gætu lokast með skömmum fyrirvara. Vegagerðin biðlar til fólks að keyra ekki ökutæki sem taka á sig mikinn vind á milli landshluta í dag og fram á morgundag.