„Í einhverju fáti æði ég bara af stað. Ég ætlaði bara að drífa mig í þetta og vera ekkert að láta bíða eftir mér,“ segir Víðir Reynisson, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.
Víðir var dreginn fyrstur þingmanna til að draga sér sæti í úthlutun þingsæta í gær.
„Þetta var búið að vera ótrúlega hátíðlegt og skemmtilegt allt saman en það sem var skemmtilegt í þessu líka var að Sigmundur Ernir, sem sat við hliðina á mér, segir: „Ég er alveg viss um að þú verðir dreginn upp og verðir fyrstur til að velja þér sæti,“ og við hlógum að því,“ segir Víðir í samtali við mbl.is.
„Svo er þessi litla brík þarna sem tærnar fara í og ég er heppinn að vera ekki framþyngri en ég er þannig að ég flaug ekki alveg á hausinn. Þetta slapp ótrúlega vel til og ég náði að fljúga þarna yfir,“ segir þingmaðurinn og hlær dátt.
„Mér fannst þetta mjög fyndið sjálfum og hef mikinn húmor fyrir sjálfum mér í öllu svona.“
Víðir segir að um fína áminningu hafi verið að ræða því þetta sé ekki leiðin sem eigi að ganga í þingsalnum. „Maður á að labba fram hjá ræðupúltinu en ekki í gegnum það þannig að ég geri þetta örugglega aldrei aftur.“
Hann lítur á atvikið sem upplifun sem hafi brotið upp öll formlegheitin og segist hafa glatt allan þingheim því allir hafi skellt upp úr nema þingforseti, „henni var mjög brugðið“.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, sat næst Víði þar sem hann dró sér sæti í þingsal og hnippti í hann og þau áttu stutt orðaskipti.
Hvað fór ykkur Kristrúnar á milli?
„Hún sagði: „Víðir, þú átt að vita að þú átt ekki að labba í gegnum ræðupúltið. Þú átt að labba fyrir framan það.“ Hún gaf mér móðurlegar leiðbeiningar um hvernig ég ætti að hegða mér í þingsal sem ég tek vel til mín.“
Gárungarnir gættu sagt að þú hafir dottið inn á þing, með vísun í stólaleikinn á kosninganótt.
„Já, datt inn á þing – datt í sætið,“ segir Víðir og hlær.
Þegar öryggissérfræðingurinn er spurður í kímni hvort hans fyrsta verk verði að láta gera úttekt á öryggismálum í þingsal segir hann frá því að vinur hans hafi „taggað“ hann a facebook í dag og spurt hvort hann hafi ekki farið yfir fallvarnarbúnaðinn.
„Kannski þurfum við að gera það bara.“
Víðir hefur víða sagt í aðdraganda setningar 156. löggjafarþings Íslendinga að honum þyki þingsetan mikill heiður. Segist hann taka verkefnið mjög alvarlega.
„Fyrst ég bauð mig fram í þetta, að fá þennan stuðning og vera síðan treyst fyrir mikilvægum verkefnum, eins og að vera formaður allsherjar- og menntamálanefndar,“ segir hann.
„Það er gríðarlega margt þar fram undan sem er spennandi og frábær hópur sem var kosinn í þá nefnd. Hlakka mikið til að vinna með þeim hópi. Þar er margt fólk sem þekkir málefni nefndarinnar mjög vel, þannig að ég hef trú á því að við eigum eftir að láta gott af okkur leiða í vetur.“