Hriktir í meirihlutanum í borginni

Einar Þorsteinsson borgarstjóri talar tæpitungulaust um vandræði meirihlutans í Reykjavík í þætti Dagmála sem birtur verður hér á mbl.is snemma í fyrramálið.

„Ég skal bara vera hreinskilinn, það hriktir aðeins í, í kringum þetta mál – og eðlilega. Afstaða Samfylkingar og Pírata, og að einhverju leyti Viðreisnar líka, hefur alveg verið skýr að þau vilja flugvöllinn burt. Við höfum ekki verið þar,“ segir Einar.

Hefði ekki átt að koma á óvart

Einar og aðrir borgarfulltrúar Framsóknar studdu tillögu Sjálfstæðisflokksins varðandi áframhaldandi veru flugvallarins í Vatnsmýri, og breytingu á aðalskipulagi þar að lútandi. Hingað til hafa tillögur Sjálfstæðisflokksins ekki fengið brautargengi á vettvangi borgarinnar.

Um árabil hefur meirihlutinn unnið eftir þeirri stefnu að flugvöllurinn skuli burt úr Vatnsmýrinni, og sú umræða hélt áfram jafnvel eftir að eldsumbrot hófust á Reykjanesskaga í næsta nágrenni við Hvassahraun, þar sem meirihlutinn hefur fram til þessa séð fyrir sér framtíðarheimili hans.

Einar gaf þó lítið fyrir það að afstaða Framsóknar í málinu hefði verið óvænt, þrátt fyrir að samstarfsflokkum hans hafi sýnilega verið brugðið og hlé gert á fundi borgarstjórnar vegna málsins.

„Ég held að það þurfi ekki að koma neinum á óvart að við í Framsókn stöndum með Reykjavíkurflugvelli og höfum alltaf gert. Þarna kom tillaga frá Sjálfstæðisflokknum um að gera breytingar á aðalskipulagi, þannig að það sé aukinn fyrirsjáanleiki með rekstur og tilveru flugvallarins til ársins 2040. Við styðjum það eindregið.“

Nánar er rætt við Einar um málið, rekstur borgarinnar, fylgishrun flokksins í könnunum og fleiri í Dagmálum í fyrramálið.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri Reykjavíkurborgar.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri Reykjavíkurborgar. Morgunblaðið/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert