Jákvæð þróun varð í kjaraviðræðum kennara, ríkis og sveitarfélaga í dag og hefur lausnamiðað samtal komist í gang á milli deiluaðila. Hvort lausn deilunnar sé í sjónmáli þorir ríkissáttasemjari þó ekki að segja til um, en það er létt í honum hljóðið.
„Við erum á fullu að vinna hérna í húsinu, bæði grunnskólinn og framhaldsskólinn og það má segja að við höfum komist svolítið af stað í dag. En við vitum ekkert hvað við eigum mikið eftir,“ segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.
„Það hefur kastast af stað báðum megin þannig við erum í frekar jákvæðum, lausnamiðuðum fasa og við reynum að halda honum lifandi eins lengi og við getum. Þannig það er frekar jákvæð þróun á málum í dag,“ segir hann jafnframt.
Ástráður hefur þó ekki tekið ákvörðun um hvort og þá hvenær hann boðar til næsta formlega samningafundar, enda skipti formlegheitin ekki öllu máli.
„Ég læt mér alveg í léttu rúmi liggja hvort samningafundir eru formlegir eða óformlegir, ég vil bara ná árangri. Ég læt það bara ráðast af því hvað hentar.“
Á mánudag hófust ótímabundin verkföll í fjórtán leikskólum og tímabundin verkföll í sjö grunnskólum, sem hafa áhrif á um 5.000 börn og fjölskyldur þeirra.
Í dag samþykktu svo kennarar í fimm framhaldsskólum að hefja ótímabundin verkföll þann 21. febrúar, náist samningar ekki fyrir þann tíma. Verkfall var einnig samþykkt í einum tónlistarskóla.