Drög að aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.
Áætlunin tekur til áranna 2025 til 2030 og í henni eru lagðar til 26 aðgerðir sem snúa að öllum stigum sjálfsvígsforvarna: forvörnum, íhlutunum og stuðningi eftir sjálfsvíg.
Starfshópur, sem skipaður var af fyrrverandi heilbrigðisráðherra, hóf störf í febrúar á síðasta ári og vann tillögur að aðgerðaáætluninni. Studdist hann meðal annars við leiðbeiningar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, klínískar leiðbeiningar og árangursrík áhersluatriði í sjálfsvígsforvörnum á alþjóðavísu.
Áætluninni er ætlað að styðja við aðrar núgildandi stefnur og áætlanir á sviði geðheilbrigðis, lýðheilsu og áfengis- og vímuvarna en stuðst er við gagnreynda þekkingu á sjálfsvígforvörnum, bæði innan- og utanlands, að því er fram kemur í tilkynningu.
Aðgerðaáætlunin byggir á sjö efnisflokkum:
1. Samhæfingu og skipulagi
2. Stuðningi og meðferð
3. Takmörkun á aðgengi að hættulegum efnum, hlutum og aðstæðum
4. Vitundarvakningu og fræðslu
5. Forvörnum og heilsueflingarstarfi
6. Gæðaeftirliti og sérfræðiþekkingu
7. Stuðningi við eftirlifendur
Í gegnum samráðsgátt geta haghafar og almenningur komið sínum sjónarmiðum á framfæri til 4. mars 2025.
Sjálfsvíg eru alvarlegur lýðheilsuvandi sem hefur víðtækar afleiðingar fyrir samfélagið allt. Árangursrík aðgerðaáætlun er því mikilvæg til að stuðla að bættri heilsu landsmanna, segir í lýsingu málefnisins í samráðsgátt.