Viðar Guðjónsson
„Þetta er ekki góð spá og líklega versta veður ársins. Sérstaklega þegar horft er til þess að þetta nær til alls landsins,“ segir Katrín Agla Tómasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, en spáð er vonskuveðri, miklum vindi og úrkomu í dag.
„Við erum með viðbúnað og höfum verið að samhæfa aðgerðir og eigum fund með Veðurstofunni dag til að fylgjast með framgangi veðursins. Helst snýr okkar vinna þó að því að samhæfa lögregluembættin. En það mun reyna mikið á næsta sólarhringinn ef spáin gengur eftir,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir upplýsingafulltrúi almannavarna, en Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir allt landið.
Icelandair hefur aflýst 38 flugferðum til og frá landinu í dag og á morgun og Play hefur sömuleiðis aflýst öllum áætlunarferðum sínum frá Keflavík nema þremur. Þá verða allar endurvinnslustöðvar Sorpu lokaðar í dag.
„Björgunarsveitir hafa verið að undirbúa sig og fara yfir búnað. Sérstaklega í Eyjafirði þar sem veðrið á að vera einna verst. Hér á suðvesturhorninu megum við ekki vera værukær enda þótt veturinn hafi verið stórviðralítill til þessa. Við höfum fyrramálið til þess að festa allt smálegt en svo skellur veðrið á. Eins er vert að hvetja verktaka til að ganga vel frá byggingarsvæðum. Í síðasta stórviðri voru helstu verkefnin hjá okkur í kringum þau,“ segir Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar.