Gera má ráð fyrir að síðar á þessu ári verði kynntar hugmyndir að uppbyggingu í Norður-Mjódd.
Nánar tiltekið á lóðunum Stekkjarbakka 4-6 og Álfabakka 7, á svæðinu frá strætóstöðinni í Mjódd að Staldrinu, en þær eru í eigu fasteignaþróunarfélagsins Klasa. Svæðið er hér sýnt á loftmynd.
Þær upplýsingar fengust frá Klasa að verið væri að vinna að uppdrætti og greinargerð ásamt ýmsum greiningum. Sú vinna væri langt komin og vonir bundnar við að málið yrði tekið fyrir hjá Reykjavíkurborg á næstunni og áformin þá kynnt nánar.
Fram kemur í skipulagslýsingu að endanlegur fjöldi íbúða á svæðinu hafi ekki verið ákveðinn. Hins vegar hefur verið rætt um 450 íbúðir á svæðinu auk atvinnuhúsnæðis á jarðhæð.
Skipulagsmál í Mjódd hafa verið mikið til umræðu að undanförnu. Þá ekki síst vegna uppbyggingar á atvinnuhúsnæði í Álfabakka 2 í Suður-Mjódd.
Nú er athyglin að beinast að uppbyggingu í Norður-Mjódd, norðan Breiðholtsbrautar, en sagt var frá því í Morgunblaðinu í gær að fjárfestar hafa keypt SAM-bíóhúsið í Álfabakka 8. Bíða þeir nú viðbragða frá borginni varðandi framtíðarnotkun hússins.
Tengist einn þessara fjárfesta jafnframt uppbyggingunni í Álfabakka 2.
Fyrirhuguð uppbygging Klasa í Norður-Mjódd er stærsta verkefnið á svæðinu. Garðheimar og ÁTVR hafa þegar flutt þaðan og í nýtt húsnæði í Álfabakka 6 í Suður-Mjódd.
Meiri þétting byggðar er svo möguleg á bílastæðum vestan og austan við verslunarkjarnann í Mjódd. Til að setja 450 íbúðir í samhengi voru byggðar um 360 íbúðir við hlið RÚV. Þá er miðað við um 100 íbúðir með þéttingu byggðar í Arnarbakka 2, 4 og 10 austan við Mjódd. Loks má nefna áform um Aldin Biodome í jaðri Elliðaárdals við Stekkjarbakka.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag