Birta Hannesdóttir
Eldingum sló niður á mínútu fresti í um tuttugu mínútur í Þorlákshöfn nú í kvöld. Gísli Sigurður Gunnlaugsson, íbúi í Þorlákshöfn, tók eldingarnar upp á myndband og klippti saman.
Hann segir að miklar drunur hafi fylgt eldingunum en að börnin hans, fjögurra og sjö ára, hafi verið afar áhugasöm um eldingarnar og fylgst með þeim slá niður.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að eldingarnar komi með krappri lægð sem gengur nú yfir landið. Í lægðinni myndast kuldaskil sem koma úr vestri og þá skapast andstæður, bæði í kulda og hita, sem myndar línu sem er svokallaður eldingaveggur og færist með lægðinni.