Myndskeið: Tré þverar gangstétt í Laugardal

Stórt furutré féll á miðja gangstétt á Laugarásvegi í kvöld vegna mikilla vindhviða í borginni. 

Elsa María Indriðadóttir, íbúi í Laugardal, segir í samtali við mbl.is að hún hafi verið að keyra um hverfið eftir að mesta óveðrið var yfirstaðið þegar hún sá að tré hafði þverað gangsétt á Laugarásvegi.  

Hún segir að í fyrstu hafi henni brugðið þar sem hún sá ljós frá Hopp-rafskútu vera undir trénu og hélt hún að einhver hefði orðið undir. Svo var þó sem betur fer ekki. 

Aðspurð segir Elsa að hún hafi ekki orðið vör við önnur tré eða tjón í hverfinu á meðan hún keyrði um. 

Hér má sjá glitta í ljósin frá Hopp-rafskútunni.
Hér má sjá glitta í ljósin frá Hopp-rafskútunni. Ljósmynd/Aðsend

Ekkert ferðaveður í kortunum

Rauð veðurviðvörun var í gildi á höfuðborgarsvæðinu frá 16 í dag og til klukkan 19 í kvöld. Vindhviður náðu hámarki um klukkan 18 í kvöld þegar hviður mældust 30-35 m/s. Ekki hefur mælst hærri vindhraði á Veðurstofureitnum síðan árið 2022. 

Nú er í gildi appelsínugul veðurviðvörun til klukkan átta í fyrramálið en þá tekur rauð veðurviðvörun aftur gildi til klukkan 13 á morgun. Spáð er suðvestan 28-33 m/s og hvassara í vindstrengjum. 

Foktjón er talið mjög líklegt og getur orðið hættulegt að vera á ferð utandyra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert