„Ég get ekki lýst því hversu mikið ég sé eftir þessu öllu saman,“ sagði Ísidór Nathansson tilfinningaþrunginni röddu fyrir Landsrétti í morgun. Í skýrslutöku sinni lýsti hann því hversu erfitt hryðjuverkamálið svokallaða hefði reynst honum.
Tæpt ár er liðið frá því að Ísidór og Sindri Snær Birgisson voru sýknaðir af ákæru sem sneri að tilraun til hryðjuverka í Héraðsdómi Reykjavíkur. Mennirnir voru hins vegar dæmdir fyrir vopnalagabrot.
Sindri var dæmdur í tveggja ára fangelsi og Ísidór hlaut átján mánaða dóm.
Skýrslutaka Ísidórs rímaði við skýrslutöku Sindra sem fór fram í gær þar sem hann lýsti mikilli eftirsjá.
Í upphafi dags var spiluð tæplega tveggja klukkustunda upptaka af skýrslutöku Ísidórs í héraði.
Nánar má lesa um hana hér að neðan.
Skýrslutakan yfir Ísidóri í Landsrétti tók einungis um tíu mínútur.
Saksóknari spurði hann út í öfgasamtök. Ísidór sagðist ekki taka þátt í neinum slíkum félagasamtökum.
Meðal annars var hann spurður út í beiðni sem honum barst um að leiða íslenska deild Norrænu mótstöðuhreyfingarinnar (NRM), eða nýnasistasamtökin Norðurvígi. Í júní skilgreindu bandarísk stjórnvöld samtökin sem hryðjuverkasamtök.
NRM eru stærstu nýnasistasamtökin í Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Íslandi en einnig í Finnlandi, þar sem samtökin hafa verið bönnuð frá árinu 2020.
Ísidór sagði að fjölmörg samtök hefðu haft samband við hann en hann hefði ekki tekið þátt í neinu slíku.
Saksóknari benti þá á að hann hefði svarað skilaboðum NRM ári eftir að þau bárust. Sagðist Ísidór einungis hafa verið að forvitnast hvort eitthvað væri í gangi hérlendis hjá NRM. Að hans vitund hefur starfsemin verið lítil og enginn leiðtogi hérlendis.
„Ég er ekki partur af neinu svona,“ sagði Ísidór á einum tímapunkti.
Þá var hann spurður hvort hann hefði einhvern tímann verið bannaður á einhverjum miðli.
Ísidór sagðist hafa verið bannaður á Discord en ekki vegna neins sem hann gerði heldur útskýrði hann árásir sem hópar gera á hvern annan á miðlinum. Hann hafi verið í hópi sem hafi verið bannaður vegna árásar annars hóps.
Ísidór var spurður af hverju hann eyddi mikið af gögnum 20. september 2022, daginn áður en hann var handtekinn.
Hann sagðist hafa fengið símtal frá Sindra eftir að hann hefði setið í gæsluvarðhaldi í viku vegna vopnalagabrota. Ísidór hafði þá óttast að sama gerðist fyrir hann og því eytt ýmsu af því hann vissi „hvernig þetta liti út“.
Á einum tímapunkti spurði Ísidór saksóknara spurningar og benti dómari þá á að það væri saksóknari sem spyrði spurninga, ekki ákærði. Sama gerðist í héraðsdómi fyrir rúmu ári síðan.
Ísidór baðst afsökunar í Landsrétti og kvaðst vera kvíðinn.
Ísidór var spurður af Einari Oddi Sigurðssyni, verjanda sínum, hvort hann vildi breyta einhverju varðandi fyrri framburð sinn og sagðist hann ekki vita hvað hann ætti að segja.
Einar Oddur spurði hann þá um persónulega hagi hans í kjölfar málsins.
Ísidór sagðist hafa sótt endurhæfingu og sálfræðimeðferð.
Erfitt hefði verið fyrir hann að fá vinnu og honum meðal annars verið bolað út úr starfi á einum vinnustað. Þar á eftir hafi hann þurft að fá margföld meðmæli frá fólki til þess að fá vinnu.
Í dag segist hann vinna sem mest til að dreifa huganum.
Ísidór lýsti hvernig nánast allir vinir hans og margir fjölskyldumeðlimir hefðu snúið baki við honum.
Þá lýsti hann að nánast allir vinir unnustu hans hefðu snúið baki við henni, en hún var viðstödd skýrslutökuna og ljóst mátti vera að málið hefur tekið mikið á parið.
Ísidór sagði að það væri ýmislegt sem hann vildi fleira segja fyrir dómi ef fjölmiðlar væru ekki á staðnum.
Að lokum sagði Ísidór að samskipti hans og Sindra hefðu verið ljótur einkahúmor. Engin meining hefði verið að baki.
Hann nefndi að hann hefði enga sögu um ofbeldi og hefði stofnað fjölskyldu.
Saksóknari mun flytja mál sitt eftir hádegi og á morgun lýkur aðalmeðferð í málinu með málflutningi verjanda.