Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Viðreisnar, gagnrýnir Flokk fólksins harðlega og segir það vera óásættanleg vinnubrögð fyrir stjórnmálamenn í lýðræðisríki að hóta fjölmiðlum með skerðingu á opinberum styrkjum.
Í færslu sem Þorsteinn birti á Facebook-síðu sinni í dag segir hann að það væri óskandi að Flokkur fólksins færi að sýna í verki að þau skildu þá ábyrgð sem fylgi því að vera við völd.
Vísar hann þar til ummæla Sigurjóns Þórðarsonar, þingmanns Flokks fólksins og formanns atvinnuveganefndar, sem hefur lýst því yfir að ástæða sé að endurskoða opinbera styrki til Morgunblaðsins vegna umfjöllunar blaðsins um málefni flokksins.
„Hótanir um skerðingu opinberra styrkja til fjölmiðla vegna ósættis við umfjöllun þeirra eru óásættanleg vinnubrögð af hálfu stjórnmálamanna í lýðræðisríki,“ segir Þorsteinn og bætir við að því miður sé það ekki fyrsta dæmið um slík vinnubrögð af hálfu flokksins á þeim skamma tíma sem liðinn er frá því hann tók sæti í ríkisstjórn.