Sólarhringsaðstoð á hverfastöðvum borgarinnar

Hverfastöðvarnar eru til taks til að sinna allskyns verkefnum tengd …
Hverfastöðvarnar eru til taks til að sinna allskyns verkefnum tengd óveðrinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það sem við gerum í svona tilfellum, sérstaklega þegar það er komið rautt [veðurviðvörun], þá mönnum við hverfastöðvarnar okkar með lykilfólki allan sólarhringinn, segir Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlandsins, í samtali við mbl.is. 

Hverfastöðvarnar eru þá til taks til að sinna verkefnum sem geta komið upp á borgarlandinu vegna óveðursins sem gengur nú yfir landið. Hjalti segir borgina vera í samvinnu við almannavarnir höfuðborgarsvæðisins og að hverfastöðvarnar muni koma almannavörnum til aðstoðar ef þess þarf. 

„Þetta er rautt ástand og það þýðir bara að við þurfum að geta brugðist við í raun og veru allan sólarhringinn,“ segir hann.

Búin að hreinsa niðurföll og aðra lágpunkta

Rauð veðurviðvörun tók gildi á höfuðborgarsvæðinu klukkan 16 í dag og er í gildi til klukkan 19 þegar að appelsínugul viðvörun tekur við. Þá tekur rauð veðurviðvörun aftur gildi klukkan átta í fyrramálið og til klukkan 13 á morgun. 

Aðspurður segir Hjalti að búið sé að hreinsa vel af öllum helstu niðurföllum, svelgjum og öðrum mikilvægum lágpunktum í borginni síðustu daga svo að vatn fyllist ekki og það myndist vatnselgur. 

„Þetta eru allt hlutir sem við þekkjum. Þetta er ekki í fyrsta skiptið og við vinnum þetta bara með ákveðnu verklagi,“ segir hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert