Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins hefur skipað Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sem sérstakan sendifulltrúa ráðsins í málefnum barna í Úkraínu.
Frá þessu greinir ráðið í tilkynningu þar sem fram kemur að hún muni vekja fólk til vitundar um þær aðstæður sem börn í Úkraínu glíma við og ráðstafanir ráðsins til að koma þeim til stuðnings.
Þórdís Kolbrún muni einnig efla alþjóðasamvinnu og tryggja innri samræmingu, sem lýtur meðal annars að sérstakri skrá yfir það tjón sem innrás Rússa hefur valdið í Úkraínu.
„Erfiðleikar barna í Úkraínu eru enn í forgangi hjá Evrópuráðinu – og fyrir mig persónulega,“ segir framkvæmdastjórinn Alain Berset í yfirlýsingu.
„Frá upphafi árásarstríðs Rússlands gegn Úkraínu fyrir næstum þremur árum, hafa milljónir barna neyðst til að flýja Úkraínu. Þúsundir voru ólöglega fluttar til Rússlands, til svæða sem það hefur hernumið eða til svæða sem lúta stjórn þess tímabundið.“
Í tilkynningunni er tekið fram að Þórdís Kolbrún komi að borðinu með mikla reynslu af alþjóðastjórnmálum og -lögfræði.
Þar til í liðnum desember hafi hún gegnt nokkrum ráðherraembættum í ríkisstjórn Íslands og ekki síst verið utanríkisráðherra þegar Ísland fór með formennsku í Evrópuráðinu árið 2023.
Haft er eftir Þórdísi Kolbrúnu að hún sé þakklát og það sé hennar heiður að vera treyst fyrir hlutverkinu.
„Ég hlakka til að styðja mikilvæga vinnu framkvæmdastjórans í þessum málaflokki og ég mun eftir fremsta megni leggja mitt af mörkum við að tryggja og verja réttindi barna í Úkraínu og þjóna málstað úkraínsku þjóðarinnar,“ segir hún.