Skondið atvik varð í gær við úthlutun þingsæta í kjölfar setningar 156. löggjafarþings Íslendinga.
Þingsætahlutun fer þannig fram að þingmenn eru kvaddir að forsetaborði með nafnakalli og draga sér sæti en hlutað er um það hver dregur fyrst með því að forseti Alþingis dregur númer sem stendur fyrir stöðu þingmanna í stafrófsröð.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem áður hafði verið kosin forseti Alþingis, dró kúlu með tölunni 57 og las svo upp nafn Víðis Reynissonar, þingmanns Samfylkingarinnar, af lista.
Víðir, sem er þriðji þingmaður Suðurkjördæmis, gekk hnarreistur greiðum skrefum að forsetaborðinu en í þann mund sem hann var að stíga upp á pallinn, sem tengir forsetaborðið og pontuna, rak hann fótinn í hlið pallsins svo hann hrasaði.
Til allrar hamingju náði Víðir þó að bjarga sér með lipurlegu hoppi upp á pallinn og lét sem ekkert væri en Þórunn forseti tók andköf og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra reyndi að hemja hláturinn. Nokkrir aðrir þingmenn áttu í meiri vandræðum með það en leiðtogi Samfylkingarinnar og ríkisstjórnarinnar og einhverjir skelltu upp úr.
Víðir dró þá sjálfur kúlu númer 41 úr kistlinum góða og átti í stuttum orðaskiptum við formann sinn áður en hann tók sér sæti á nýjum stað, hvar hann mun sitja út þetta þing.
Líklega var þörf á að létta stemninguna eftir þau formlegheit og þann hátíðleika sem fylgir jafnan þingsetningu. Víðir hefur tekið það á sig enda liðsmaður góður. Við erum öll saman í þessu.
Það er spurning hvort öryggismálasérfræðingurinn Víðir láti það vera sitt fyrsta verk á þingi að láta gera úttekt á öryggismálum í þingsal. Víðir er einn 18 nýkjörinna þingmanna sem undirritaði drengskaparheit sitt að stjórnarskránni í gær og vonandi er fall fararheill.