Ólafur Þór Jóhannsson framkvæmdastjóri lést á Landspítalanum 2. febrúar, sjötugur að aldri.
Ólafur fæddist 6. apríl 1954 í Reykjavík, ólst upp í Grindavík og bjó þar nær alla tíð. Foreldrar Ólafs voru Jóhann Ólafsson múrarameistari og Ólöf Ólafsdóttir matráður og verslunarkona.
Ólafur lauk skólagöngu í Grindavík 13 ára. Fór þá, ófermdur, í Héraðsskólann á Laugarvatni og lauk landsprófi þar 1970. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni árið 1974. Tók þá frí frá námi í tvö ár og fór á sjóinn, en fór eftir það í KHÍ og lauk B.ed.-prófi 1979. Hann lauk 1. stigs námi í Stýrimannaskólanum 1978 sem hann tók með námi á öðru ári í KHÍ.
Á námsárunum vann Ólafur í byggingarvinnu og múrverki. Fór til sjós 18 ára, fyrst á síldveiðar í Norðursjó á Grindvíkingi GK og var lengst af á þeim báti á sumrin og eftir stúdentspróf. Hann var kennari við Grunnskóla Grindavíkur frá 1979-1986 en fór þá aftur á Grindvíking og varð 2. stýrimaður.
Ólafur var ráðinn framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Suðurnesja 1987 sem var einn af fyrstu fiskmörkuðum á Íslandi. Árið 2001 flutti hann til Bremerhaven í Þýskalandi og starfaði þar við fiskmarkað í tvö ár. Flutti eftir það heim aftur og stofnaði fyrirtækið Spes ehf. ásamt Stakkavík og hóf útflutning á fiski, aðallega ferskum.
Ólafur keppti í tveimur efstu deildum körfuboltans frá 1971-1990. Fyrst með HSK, síðan lengstum með Grindavík. Hann var í liði Ungmennafélagsins Hvatar í Grímsnesi sem varð Íslandsmeistari í blaki 1973 og spilaði tvo fyrstu landsleiki Íslands í blaki.
Ólafur var kjörinn í stjórn KKÍ árið 1995 og var varaformaður sambandsins til 2001. Hann var sæmdur gullmerki KKÍ og Ungmennafélags Grindavíkur. Ólafur var kjörinn formaður stjórnar nýstofnaðs félags um rekstur Fisktækniskóla Íslands árið 2009 og gegndi því starfi til 2023.
Eftirlifandi eiginkona Ólafs er Þórunn Sigurlaug Jóhannsdóttir stuðningsfulltrúi, f. 1957. Börn þeirra eru Sigríður Anna framhaldsskólakennari, f. 1981, Jóhann Þór, körfuboltaþjálfari og þjónustufulltrúi, f. 1983, Þorleifur Ólafsson, körfuboltaþjálfari og framkvæmdastjóri, f. 1984, og Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur í körfubolta og gæðastjóri, f. 1990. Barnabörnin eru 12.
Útför Ólafs fer fram frá Grindavíkurkirkju 13. febrúar klukkan 14.