Samgöngustofa hefur gefið út fyrirmæli í formi tilskipunar um öryggi á grundvelli eftirfarandi óöruggs ástands um notkun flugbrautar 13/31 á Reykjavíkurflugvelli í ljósi þess að hindranir, þ.e. trjágróður í Öskjuhlíð, hafa vaxið upp í hindranafleti sem vera skulu hindranalausir.
Mælingar Isavia innanlandsflugvalla frá október sl. staðfesta að trjágróður hefur vaxið upp í hindranafleti Reykjavíkurflugvallar og því er ekki hægt að tryggja hindranalaust aðflug og flugtak á flugbraut 13/31.
Þetta kemur fram í tilskipun Samgöngustofu til Isavia.
Hvorki Isavia innanlandsflugvöllum né Samgöngustofu hefur tekist að fá hindranir fjarlægðar þrátt fyrir skýr ákvæði skipulagsreglna Reykjavíkurflugvallar og hefur Reykjavíkurborg verið veittur frestur til 17. febrúar nk. til að upplýsa Samgöngustofu um hvernig staðið verður að því að uppfylla þær kröfur.
Samgöngustofa beinir þeim fyrirmælum til Isavia innanlandsflugvalla að takmarka notkun flugbrautar 13/31 þannig að flugbrautin verði ekki notuð til flugtaks og lendinga sem reynir á þá hindranafleti sem ekki eru hindranafríir. Þetta felur í sér að loka skal fyrir lendingar á flugbraut 13 og flugbraut 31, og að loka skal fyrir flugtök á flugbraut 13. Með vísan í fyrri samskipti þá ítrekar Samgöngustofa að bannið nær einnig til sjúkraflugs. Nota má flugbraut 31 til flugtaks og til aksturs loftfara og ökutækja.
Tilskipun þessi skal taka gildi að miðnætti aðfaranótt laugardags, eða eftir tvo daga. Tilskipunin gildir til 5. maí 2025 en verður aflétt þegar staðfest hefur verið af Isavia innanlandsflugvöllum að hindranafletir skv. skipulagsreglum Reykjavíkurflugvallar séu hindranafríir ellegar að Isavia innanlandsflugvellir hafi auðkennt mögulegar mildunarráðstafanir sem Samgöngustofa hefur samþykkt.
Afstaða Samgöngustofu er sú að hér sé um skammtíma lokun að ræða (undir þremur mánuðum). Isavia innanlandsflugvellir skulu setja verklag, bæði vegna reksturs flugvallarins og vegna veitingu flugumferðarþjónustu á og við flugvöllinn sem tryggir að við framkvæmd þessarar tilskipunar sé unnið skv. viðeigandi kröfum auk þeirra ráðstafana sem Isavia innanlandsflugvellir auðkenndu í áhættumati sínu um lokun flugbrautar 13/31 vegna hindrana í Öskjuhlíð, dagsett 3. febrúar 2025.