„Jákvæð framför á öllum vígstöðvum“

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kjaraviðræður kennara, ríkis og sveitarfélaga halda áfram í dag en fundir hafa verið boðaðir klukkan 13. Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segir viðræður hafa gengið vel í gær en tekur þó fram að málið sé ekki búið.

„Það funduðu allir í gær. Bæði viðsemjendur Sambands sveitarfélaga og líka ríkisins,“ segir Ástráður í samtali við mbl.is.

Málið ekki búið

„Það varð jákvæð framför á öllum vígstöðvum og það gekk bara vel í gær. Ég var mjög ánægður með þann dag. En málið er ekki búið. Það eru náttúrulega enn þá eftir svona punktar sem þarf að leysa og sumir þeirra dálítið erfiðir.“

Segir ríkissáttasemjarinn þó að á meðan menn tali saman sé hann „sæmilega glaður“.

Samninganefndir deiluaðilanna funduðu stíft síðustu helgi með þá von um að hægt væri að afstýra verkfallsaðgerðum sem hófust svo á mánudag.

Mögulega hægt að nálgast málið með öðrum hætti

Spurður um hvaða sameiginlegu fleti aðilarnir séu að finna núna sem ekki fundust um helgina segir Ástráður málið í sjálfu sér hafa lítið breyst.

„En nú hafa aðilarnir haft tíma og ráðrúm til þess að anda í kviðinn og hugsa sig um og þá fá menn kannski möguleika á því að sjá þetta aðeins öðruvísi og nálgast þetta með öðrum hætti. Síðan er hugsanlega hægt að finna aðrar lausnir á því sem við vorum að fást við.“

Þá segir hann fundi hafa verið boðaða í dag klukkan 13.

„En fram að þeim tíma þá eru menn að undirbúa sig, vinna heimavinnu gærdagsins og tala saman í síma og svona. Allt bara í góðu standi þannig.“

Ótímabundin verkföll 21. febrúar

Á mánu­dag hóf­ust ótíma­bund­in verk­föll í fjór­tán leik­skól­um og tíma­bund­in verk­föll í sjö grunn­skól­um, sem hafa áhrif á um 5.000 börn og fjöl­skyld­ur þeirra.

Í gær samþykktu svo kenn­ar­ar í fimm fram­halds­skól­um að hefja ótíma­bund­in verk­föll þann 21. fe­brú­ar, ná­ist samn­ing­ar ekki fyr­ir þann tíma. Verk­fall var einnig samþykkt í ein­um tón­list­ar­skóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert