Veðurspáin hefur gengið eftir hingað til að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands en rauðar viðvaranir verða í gildi á stórum hluta landsins í dag.
Rauð viðvörun tók gildi á Austfjörðum klukkan 7 og klukkan 8 taka rauðar viðvaranir gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa og Austurlandi að Glettingi klukkutíma síðar.
„Okkur sýnist að það gæti orðið klukkutíma seinkun á að það hvessi hér á höfuðborgarsvæðinu en skilin eru mjög skörp rétt fyrir austan okkur og það er því hárfín lína hvar verði afar slæmt veður og hvar verði aðeins betra veður,“ segir Kristín Hermannsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Hún segir að rauðu viðvararnir verði í gildi eins og þær eru þótt það hvessi aðeins seinna á höfuðborgarsvæðinu heldur en gert hafi verið ráð fyrir. Hún segir að það sé orðið mjög hvasst á Suður- og Austurlandi.
Kristín segir að norðvesturhluti landsins og Vestfirðir sleppi best en þar verði mun betra veður en á öðrum stöðum. Engin viðvörun er á Vestfjörðum. Hún segir að versta veðrið í dag verði á suður og austurhluta landsins og ekki fari að lægja þar fyrr en undir kvöld. Seini part dags kólnar í veðri með suðvestan átt og éljum.