Engin dagur er eins hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og voru lögregluþjónar kallaðir út í fjölbreytt verkefni í dag.
Meðal þess sem tilkynnt var um í dag var aðili sem búinn var að maka saur um allt inni á salerni fyrirtækis í Laugardal.
Ekki kom fram í dagbók lögreglu um hvaða fyrirtæki hefði verið að ræða en að viðkomandi aðila hefði verið vísað á dyr af lögreglu.
Var „erfiðum viðskiptavini“ einnig vísað út frá verslun í miðbæ Reykjavíkur en ekki kemur fram hvað í hegðun viðskiptavinarins hafi kallað á aðstoð lögreglu.
Þá brást lögregla sömuleiðis við nokkrum útköllum vegna heimilisófriðar og ágreinings í fjölbýlishúsi.