Of mikil einföldun að skella skuldinni á geðrof

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, ræddi við mbl.is um málið.
Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, ræddi við mbl.is um málið. Samsett mynd

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir manndrápsmálið í Neskaupstað „hræðilegt“ en setja verði slík mál í stærra samhengi tengt því úrræðaleysi sem jaðarsett fólk upplifir í samfélaginu. Geðrof eitt og sér skýri ekki ofbeldisglæpi.

Þetta segir Grímur spurður um mál Alfreðs Erlings Þórðarsonar sem hefur verið ákærður fyrir manndrápin. Hann hefur um árabil átt við geðrænan vanda að stríða og var úrskurðaður í nauðungarvistun samkvæmt dómsúrskurði skömmu áður en voðaverkið var framið. Var hann sagður í skýrslum lækna „mögulega hættulegur sjálfum sér og öðrum“.

Þrátt fyrir það var hann með litla eða enga þjónustu í herbergi á Reyðarfirði, sem útvegað var af Fjarðabyggð þegar árásin átti sér stað.

„Þessi hópur er utan þjónustusvæðis,“ segir Grímur.

Ekki nóg að byggja aðra geðdeild 

„Við erum alltaf að bregðast við einhverjum svona stöku málum en það breytist ekkert gagnvart þessum jaðarsetta hópi. Það er t.a.m. maður sem er búinn að vera inni á réttargeðdeild í 5-6 ár þar sem það er ekkert viðeigandi úrræði sem finnst hjá félagsþjónustunni sem tekur við,“ segir Grímur.

Hann telur þetta eina birtingarmynd þess að nauðsynlegt sé að finna félagslegt búsetuúrræði sem geti sinnt þessum hópi.

„Það er ekki nóg að byggja aðra geðdeild einhvers staðar. Þetta á líka við um fanga sem fá enga betrun í fangelsi. Þar eru menn sem eru með mikinn og flókinn vanda og eiga ekkert heima þar. Svo þegar dómurinn er búinn þá tekur ekkert við. Þetta eru einstaklingar sem við erum búin að missa. Einstaklingar sem eru komnir á ákveðinn stað án þess að neinn grípi inn í á leiðinni.“

Skýri ekki manndráp 

Hann telur mikilvægt að fram komi að of mikil einföldun felist í því að skella skuldinni á geðrof þegar voðaverk lík þeim sem voru í Neskaupstað í sumar eru framin.

„Það er búið að rannsaka það að geðrof eitt og sér á ekki að skýra manndráp eða aðra glæpi. Þetta er gjarnan þannig að einstaklingarnir eru það jaðarsettir að þeir eru búnir að gefast upp. Þú ferð ekki bara og drepur fólk í tómarúmi. Það eru tíu þúsund manns sem eru öryrkjar vegna geðræns vanda og þessi hópur er ekki allur stórhættulegur.“

Því þurfi að gera skilmerkilegan mun á milli geðrofs og glæps.

„Það þarf að einblína á það hvers vegna fólk fremur glæpi. Ef þú ert jaðarsettur og ýtt til hliðar þá getur verið samhengi á milli þess og að ofbeldisglæpir séu framdir,“ segir Grímur.

Forðast fangelsi eða stofnun 

Varðandi hvað sé hægt að gera segir Grímur að fyrsta skrefið sé að setja geðheilbrigðismál í forgang í samfélaginu. Þannig verði hægt að skoða nánar hvað sé gott og hvað megi bæta.

„Þá má skoða hvað við erum að gera vel, rýna í húsnæðismálin, hvernig er önnur þjónusta? Húsnæðismálin eru sérlega stór áskorun því viss hópur hefur ekki í nein hús að vernda. Við þurfum húsnæði og viðeigandi úrræði og að reyna í lengstu lög að forðast það að þessi hópur sé í fangelsi eða inni á stofnun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert