Magnea Marín Halldórsdóttir
Heyrúllur fuku og heitur pottur tókst á loft í vindhviðu á Haugum í Skriðdal á Fljótsdalshéraði í dag.
„Það fóru rúllubaggar upp úr rúllustæðu og fuku einhverja 100 metra. Það fór heitur pottur í sömu hviðu og splundraðist alveg, hann fór bara í litla búta,“ segir Sveinn Vilberg Stefánsson, íbúi og fyrrverandi bóndi á Haugum í Skriðdal, í samtali við mbl.is, ný kominn inn eftir að tína saman bútana sem eftir voru af heita pottinum.
„Mælirinn okkar hefur nokkrum sinnum sagt 60 metrar en ég veit ekki hversu nákvæmur hann er,“ segir Sveinn um hvassviðrið.
„Ég bý í frekar stóru steinhúsi og það skelfur alveg. Það eru alveg svoleiðis hviður að hundarnir standa ekki hjá mér í hviðunum, maður stendur þetta ekkert af sér þegar þær koma.“
Spurður hvort þetta sé mesta óveður sem hann hafi upplifað á Haugum svarar hann:
„Sko, ég man eftir því, það eru líklega orðin tuttugu ár síðan að það fuku síðast rúllubaggar upp úr rúllustæðum hér, sem var reyndar akkúrat á sama stað – þannig að þetta er nú svona svipað.“
Að lokum segir Sveinn engar alvarlegar skemmdir hafa orðið á bænum.
„Það eru ekki neinar skemmdir á neinu, það er svona girðingarstaurabúnt hérna sem að splundraðist og þeir dreifðust aðeins, en stakir girðingarstaurar eiga ekkert gott með að fjúka. En þetta er svo sem ekki búið ennþá.“