Shokri gerði tilraun til manndráps

Frá þingfestingu málsins í febrúar. Shokri Keryo var í dag …
Frá þingfestingu málsins í febrúar. Shokri Keryo var í dag sakfelldur fyrir tilraun til manndráps fyrir Landsrétti. mbl.is/Eyþór

Landsréttur hefur sakfellt hinn sænska Shokri Keryo fyrir tilraun til manndráps, en héraðsdómur sýknaði hann af þeirri ákæru en sakfelldi fyrir hættubrot í fyrra.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar síðasta sumar og var Shokri í dag sakfelldur fyrir tilraun til manndráps með því að hafa skotið fjórum skotum í átt að fjórum einstaklingum í Úlfarsárdal í nóvember árið 2023.

Eitt skotanna fór inn um glugga hjá fjölskyldu sem var málinu að öllu óviðkomandi en einn mannanna sem Shokri skaut í átt að, Gabríel Douane Boama, særðist í árásinni. Shokri neitaði alfarið sök fyrir héraðsdómi í fyrra og kvaðst lítið muna frá kvöldinu umrædda.

Var refsing Shokri þyngd úr þriggja og hálfs árs fangelsi í sjö ára fangelsisdóm í dag.

Hending ein réði því að ekki hlaust mannsbani af

Í dómi Landsréttar kemur fram að talið sé sannað að Shokri hefði verið sá sem skaut úr skotvopninu og vísað var til þess að mikið magn púðurleifa greindist á fatnaði hans og hönskum sem haldlagðir voru við rannsóknina en í stroffi þeirra greindust lífsýni úr Shokri.

Lítið eða ekkert af púðurleifum hafi greinst á fatnaði annarra sem voru í bifreiðinni með Shokri og skýringar hans á því hvers vegna púðurleifar greindust á fatnaði hans hafi verið misvísandi og ótrúverðugar.

„Að mati Landsréttar þótti hending ein hafa ráðið því að ekki hlaust mannsbani af verknaði [Shokri] en gögn málsins sýndu að [Shokri] beindi öflugu skotvopni að brotaþolum og hleypti af í fjórgang með þeim afleiðingum að einn þeirra særðist.“

Því sé talið að Shokri hljóti að hafa verið ljóst að skotin gætu leitt til banvænna áverka. Hann hafi látið sér það í léttu rúmi liggja hverjar afleiðingarnar yrðu og ljóst væri að sú vitneskja að verknaðurinn gæti endað með líftjóni hefði ekki aftrað honum frá því að skjóta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert