Andlát: Reynir Guðsteinsson

Reynir Guðsteinsson.
Reynir Guðsteinsson.

Guðbjörn Reynir Guðsteinsson fyrrverandi skólastjóri lést á Hrafnistu í Hafnarfirði miðvikudaginn 5. febrúar, 91 árs að aldri.

Reynir fæddist 10. maí 1933 í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru Guðsteinn Ingvar Þorbjörnsson skipstjóri og Guðrún Margrét Guðmundsdóttir húsfreyja.

Hann lauk kennara- og söngkennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1957, BA-prófi í uppeldis- og sálarfræði frá Háskóla Íslands 1983 og prófi í barna- og unglingaráðgjöf frá Kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn 1996.

Reynir kenndi við Hlíðardalsskóla 1957-1958, var skólastjóri Barnaskóla S.D.A. í Reykjavík 1958-1962, skólastjóri Barnaskóla S.D.A í Vestmannaeyjum 1962-1966 og skólastjóri Barnaskólans í Vestmannaeyjum 1966-1979. Eftir það var hann kennari við Snælandsskóla í Kópavogi frá 1979, yfirkennari við þann skóla 1980 og skólastjóri frá 1984. Reynir fór á eftirlaun haustið 2000, en vann eftir það til ársins 2012 fyrir Skólaskrifstofu Kópavogs við greiningar og ráðgjöf vegna lesblindra barna í grunnskólum Kópavogs.

Reynir var virkur í félagsstarfi í Vestmannaeyjum, í starfi safnaðar aðventista, íþróttahreyfingunni, hjá Alþýðuflokkunum og söngfélögum. Hann var bæjarfulltrúi 1970-1978 og forseti bæjarstjórnar 1977-1978. Hann var formaður undirbúningsnefndar fyrir stofnun framhaldsskóla í Vestmannaeyjum. Eftir að hann flutti upp á land var hann m.a. formaður Kennarafélags KSK um árabil, sat í stjórn Kennarasambands Íslands 1982-1984 og stjórn Rauðakrossdeildar Kópavogs 2000-2008.

Reynir var einn af heiðursfélögum Karlakórs Reykjavíkur en hann sat lengi í stjórn kórsins og var formaður ritnefndar að sögu kórsins. Eftir hann liggja greinar um margvísleg efni og þýdd og frumort ljóð við ýmis lög.

Fyrri eiginkona Reynis var María Júlía Helgadóttir. Þau skildu. Börn þeirra eru María Björk, Helgi Ingvar og Guðmundur Víðir. Seinni eiginkona Reynis er Helga Guðmundsdóttir. Hennar börn eru Guðmundur Ibsen Brynjarsson og Brynja Sif Ibsen Brynjarsdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert