Einar tjáir sig um ákvörðunina

Einar hefur slitið meirihlutasamstarfinu.
Einar hefur slitið meirihlutasamstarfinu. Ljósmynd/Aðsend

Einar Þorsteinsson borgarstjóri staðfestir að hann hafi boðið Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Flokki fólksins til umræðu um myndun nýs meirihluta.

Þetta kemur fram í færslu hans á Facebook.

Þar segir hann það ekki hafa verið auðvelda ákvörðun að slíta meirihlutasamstarfi Framsóknar við Samfylkinguna, Pírata og Viðreisn en hún hafi þó verið mikilvæg.

Ég bauð mig fram til þess að knýja fram breytingar í Reykjavík. Margt hefur áunnist á þessum þremur árum og þá sérstaklega þegar kemur að rekstri borgarinnar,“ ritar Einar í færslu á Facebook.

Hann þakkar samstarfsfélögum fyrir samstarfið og segist vona að það verði áfram gott í borgarstjórn.

„Pólitískar áherslur þessara flokka eru þó þannig ólíkar að ég tel að við í Framsókn náum ekki að gera þær nauðsynlegu breytingar sem Reykjavík þarfnast. Við þurfum að taka stærri ákvarðanir í húsnæðismálum og ryðja meira land.“

Halda betur um rekstur borgarinnar

Hann segir þörf á fjölbreyttari lausnum í leikskólamálum, eins og vinnustaðaleikskóla og daggæsluúrræði til að brúa bilið.

Þá þurfi að halda enn betur utan um rekstur borgarinnar.

„Við þurfum að einblína á grunnþjónustuna og einfalda líf borgarbúa. Svo er brýnt að eyða óvissu um Reykjavíkurflugvöll og tryggja rekstur hans á meðan ekki er annar flugvöllur í boði. Reykjavík er enda höfuðborg allra landsmanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert