„Meiri ágreiningur en við áttum von á“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borginni.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borginni. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

„Já, þetta kom mér nú kannski svolítið á óvart, að við næðum ekki að tala saman og sjá hvort við næðum saman. En Einar treysti sér ekki í það og þá er þetta bara búið.“

Þetta segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, í samtali við mbl.is.

Hún segir Einar Þorsteinsson borgarstjóra hafa farið yfir ákvörðun sína með oddvitum meirihlutans á fundi í ráðhúsi Reykjavíkur í kvöld. Hann hefur þegar boðið Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Flokki fólksins til viðræðna um myndun nýs meirihluta.

„Við munum sannarlega byrja samtöl. Það er alveg ljóst og þau eru alveg örugglega bara byrjuð.“

Tilbúin að vinna með öllum

Spurð út í hugsanlegt meirihlutasamstarf Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokksins og Flokks fólksins svarar Þórdís Lóa:

„Það hefur náttúrulega alveg legið fyrir að ýmis málefni Viðreisnar og Framsóknar liggja ágætlega saman og við höfum alltaf sagt að við í Viðreisn séum tilbúin að vinna með öllum. Svo má náttúrulega ekki gleyma að við erum öll búin að vera saman í borgarstjórn í tvö ár þannig að við þekkjumst vel og gríðarlega gott fólk í öllum flokkum.“

Þannig að þú gætir líka ímyndað þér meirihluta á vinstri vængnum?

„Ég hef náttúrulega unnið mikið með Samfylkingunni í langan tíma og það samstarf hefur verið ótrúlega gott með Pírötum líka og Vinstri grænum svo ég minnist nú líka á það.“

Sorglegt að sjá á eftir samstarfinu

Spurð hvort hún hefði betur viljað láta á meirihlutasamstarfið reyna segir hún ýmislegt hafa breyst frá því að samstarfið hófst fyrir tveimur árum og ljóst að sum mál hafi ekki verið rædd í þaula á sínum tíma.

Það sé engu að síður sorglegt að sjá á eftir góðum meirihluta sem hafi starfað saman af heilindum fram til þessa. 

„Það kom greinilega í ljós að það var meiri ágreiningur en við áttum von á og það er leiðinlegt en þannig er það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert