Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir það sérstakt að Einar Þorsteinsson borgarstjóri noti flugvallarmálið sem átyllu til að slíta borgarstjórn.
„Það hefur alltaf verið vitað að það væri ágreiningur um flugvöllinn,“ segir Hjálmar í samtali við mbl.is.
Það kom honum mjög á óvart að borgarstjóri skyldi slíta meirihlutasamstarfinu í dag.
„Ég frétti þetta þegar ég kom heim. Ég var í miðbæ á vetrarhátíðinni. Þegar ég kem heim um áttaleytið sé ég þessi skilaboð frá félögum mínum sem ég hafði ekkert verið að fylgjast með.“
Þegar mbl.is hafði samband við Hjálmar fyrr í kvöld hafði sagðist hann ekki vita til þess að meirihlutinn væri sprunginn.
„Það var af algjörri einlægni, mig grunaði ekki neitt og hafði ekki heyrt neinn ávæning um að þetta kæmi til greina. Ég taldi víst að þetta yrði leitt í jörðu og að við fyndum út úr þessu, eins og alltaf hefur verið þessi fimmtán ár sem ég er búinn að vera í borgarstjórn þegar það koma upp ágreiningsmál í borgarstjórn. Mér datt ekki annað í hug.“
Einar fundar nú með oddvitum Viðreisnar, Flokks fólksins og Sjálfstæðisflokksins um hugsanlega myndun nýs meirihluta.
Nú er Einar að leita að nýjum flokkum til að mynda nýjan meirihluta. Heldur þú að Samfylkingin muni koma til greina?
„Nei, það get ég útilokað.“
Þá segist hann ekki eiga von á því að aðrir flokkar sem mynduðu áður meirihluta séu reiðubúnir að mynda nýjan meirihluta með Framsóknarflokknum.