Þorvaldur Gissurarson, forstjóri og eigandi ÞG Verks, segir lóðaskort og nýja gjaldtöku munu ýta undir íbúðaverð á þessu ári. Ekki hafi verið staðið við fyrirheit um aukið framboð byggingarlóða í borginni.
Máli sínu til stuðnings bendir hann á að hlutfall skatta og gjalda af verði nýrra íbúða hafi hækkað mikið og sé nú allt að 25% af söluverði. Nú hyggist Reykjavíkurborg hækka gjöldin enn frekar með því að hækka gatnagerðargjöld.
Samkvæmt nýrri könnun sem Outcome gerði fyrir Samtök iðnaðarins telur mikill meirihluti verktaka að lítið lóðaframboð hafi heft uppbyggingu íbúða á síðustu árum. Sömuleiðis hafi aðgerðir síðustu ríkisstjórnar í skattamálum dregið úr uppbyggingu íbúða.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir hækkun gatnagerðargjalda í Reykjavík munu hækka íbúðaverð.
„Það sem skiptir máli er samanlögð gatnagerðargjöld og innviða- og byggingarréttargjöld. Þau sveitarfélög sem hafa verið með lægri gatnagerðargjöld bæta sér það upp með því að hafa hærri innviðagjöld eða byggingarréttagjöld. Lögbundið hámark þessara gjalda er 15% af viðmiðunarhúsi Hagstofunnar.
Hækkunin þýðir að kostnaður við um 85 fermetra íbúð hækkar um 1,5 milljónir króna. Þessi mikla hækkun gatnagerðargjalda dregur úr uppbyggingu nýrra íbúða í Reykjavík. Aðgerðirnar eru svipaðar þeim sem fyrri ríkisstjórn réðst í um mitt ár 2023 þegar hún lækkaði endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á verkstað en niðurstöður könnunarinnar sem fjallað er um í greiningunni sýna skýrt að sú breyting hefur dregið úr uppbyggingu og framboði nýrra íbúða,“ segir Sigurður.
Líf Magneudóttir borgarfulltrúi VG telur hins vegar að borgin eigi að bregðast við miklum skorti á hagkvæmum íbúðum með því að ráðast í mikla uppbyggingu leiguíbúða.
Fyrirmyndina sækir hún meðal annars til Vínarborgar en þar tryggi borgaryfirvöld nægt framboð leiguíbúða, sem aftur haldi niðri leiguverði. Jafnframt taki húsaleigan mið af tekjum. Líf sér slíkt kerfi fyrir sér í Reykjavík en Grafarvogur henti til dæmis fyrir slíkar íbúðir.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag