Ríkissáttasemjari óskaði eftir aðkomu skrifstofustjóra mennta- og barnamálaráðuneytis að kjaradeilu kennara um síðustu helgi.
Þetta segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, í samtali við mbl.is.
„Þegar sú beiðni var komin bar ég hana undir forsætisráðherra. Hann fór í karphúsið en hann hitti ekki kennara og svo það sé á hreinu, hvorki ég né nokkur á mínum vegum bauð kennurum á nokkrum tímapunkti tveggja prósenta hækkun eða sagði að hún væri einhvers staðar í pottinum – aldrei,“ segir Ásthildur.
Ítrekar hún að það verði að koma fram að ríkissáttasemjari hafi óskað eftir þeim fundi.
Spurð um ástæður þess segir hún að ríkissáttasemjari hafi sjálfsagt gert það því hann viti að skrifstofustjórinn Hafþór Einarsson sé mjög lausnamiðaður og flottur.
„Hann bauð honum. Hann bað hann að koma. Það var ekki eitthvað sem við buðum upp á eða neitt þess háttar, það verður að koma fram,“ segir Ásthildur.
Hver er hans aðkoma þá að deilunni?
„Ég hef ekki hugmynd um það. Hann upplýsti sennilega sáttasemjara um það sem hann taldi að væri okkar sýn á málin. Hann hitti ekki kennara.“
Veit ekki hvaðan sögusagnirnar koma
Var hann með bréf til kennara?
„Nei, ég skil ekki hvaðan þessar sögusagnir eru komnar. Ég hef bara ekki hugmynd um það og skil ekki hvaðan þær eru komnar. Mér finnst þetta með ólíkindum það sem verið er að spinna.
Menntamálaráðuneytið fór yfir hvað við gætum hugsanlega gert og við leituðum lausna en við bárum þær aldrei upp við kennara, töluðum aldrei við kennara, buðum kennurum aldrei neitt og lofuðum þeim aldrei neinu,“ segir ráðherra.
Áttir þú sjálf einhver samtöl við formann Kennarasambandsins um einhverjar hækkanir?
„Nei, ekki neitt og ég veit að ekkert af mínu fólki átti í neinum samskiptum sem snerust um nokkuð þessu líkt.“