Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, segir að Einari Þorsteinssyni borgarstjóra sé ekki treystandi í vinnu sinni fyrir borgarbúa. Hann hafi sagt af sér því að hann valdi ekki verkefnum.
„Þetta er náttúrulega borgarstjóri sem er að segja af sér af því að hann veldur ekki verkefnunum, þannig blasir þetta við mér,“ segir Líf í samtali við mbl.is.
„Þá verðum við bara hin að finna út úr því hvernig við getum gert best fyrir borgarbúa sem eftir lifir kjörtímabilsins.“
Aðspurð segir Líf að hún hafi þegar rætt við oddvita allra flokka nema Framsóknar og Flokks fólksins í kjölfar þess að Einar sleit meirihlutasamstarfi borgarstjórnar í gær.
Segir hún að ekki sé í kortunum að VG taki þátt í nýju meirihlutasamstarfi Framsóknar.
„Það er hægri slagsíða í Framsókn núna í borginni og það er bara staðreynd. Við eigum enga málefnalega samleið en svo erum svo öll fólk og við spjöllum saman,“ segir Líf.
„Við erum fjölskipað stjórnvald þó að það hafi verið tilhneiging í sveitarstjórnum að mynda einhvern meirihluta um eitthvað samstarf. Þegar öllu er á botninn hvolft þá þurfum við að láta þetta ganga í fjögur ár. Við þurfum að hrinda því í verk, sem er sannarlega á okkar ábyrgð. Við megum ekki gleyma því að við erum í vinnu fyrir borgarbúa og við þurfum að láta þetta ganga.“
Hún segir að VG hafi ákveðið að taka ekki þátt í meirihlutasamstarfi í borginni í kjölfar síðustu sveitastjórnarkosninga vegna þess að meirihlutinn hélt ekki velli.
„Ég sagði það líka þá og hélt því til haga að þegar allt færi í skrúfuna að þá myndum við vera til staðar á hliðarlínunni til þess að láta þetta ganga. Það hefur ekki gengið vel hingað til en núna verðum við að finna út úr því. Það er verkefni flokka í borgarstjórn,“ segir Líf.
„Hverjum er treystandi? Greinilega ekki Einari sem að kemur í bakið á sínum samstarfsflokkum mjög skyndilega. Það er mín skoðun að hann megi vel hvíla sig, rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn. Þeir mega alveg taka sér smá frí.“