Ekki búin að hoppa á Framsóknarlestina

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar segir engan orðinn borgarstjóra enda …
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar segir engan orðinn borgarstjóra enda séu flokkarnir nú komnir aftur á byrjunarreit. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

„Ég segi allt skrítið í dag enda ekki meira en sólarhringur liðinn frá því að meirihlutinn sprakk.“

Þetta sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borginni, er blaðamaður náði tali af henni í dag.

„Þetta eru skrítnir tímar, það verður að segjast.“

Enginn orðin borgarstjóri

Hún segir oddvita Flokks fólksins, Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Viðreisnar hafa átt í áframhaldandi samtali í dag eftir að Einar Þorsteinsson borgarstjóri sprengdi meirihluta Framsóknar, Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata í gærkvöldi.

„En það er ekki þannig að við höfum hoppað á einhverja Framsóknarlest og það er langt því frá að við séum komin að einhverri niðurstöðu eða að það sé farið að ræða það hver verður borgarstjóri eða neitt slíkt,“ segir Þórdís Lóa.

Þegar meirihlutanum sé slitið marki það nýtt upphaf og allir séu raunar komnir aftur á byrjunarreit. Enginn sé með stjórnarmyndunarumboð eða þvíumlíkt.

Ekki korter í meirihluta

Hún segir það hafa komið sér í opna skjöldu er fréttir bárust af því að borgarstjóri hefði hafið viðræður við Flokk fólksins og Sjálfstæðisflokkinn er hann sleit meirihlutasamstarfinu í gærkvöld. 

„Þegar maður er í svona meirihluta þá er það mín skoðun að næstu skref hefðu verið að tala saman og reyna að finna sameiginlegan flöt á þeim meirihluta sem er búinn að vinna saman lengi. En það var út úr myndinni.“

„Þannig að fréttir um það að það sé allt klárt og klappað og að Einar verði borgarstjóri og að þetta sé bara korter í að verða meirihluti er bara alls ekki rétt.“

Kveðst Þórdís sjá á eftir góðu meirihlutasamstarfi.  Nú þurfi engu að síður að hafa hraðar hendur enda þurfi að stýra borginni á þeim 14 mánuðum sem séu eftir af kjörtímabilinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert