„Ég fagna að sjálfsögðu framboði hennar og er spennt fyrir málefnalegri og drengilegri baráttu um forystu í Sjálfstæðisflokknum.“
Þetta segir Áslaug Sigurbjörnsdóttir innt eftir viðbrögðum um mótframboð Guðrúnar Hafsteinsdóttur sem tilkynnti framboð sitt í dag.
„Ég hef fundið allt frá því að ég gaf kost á mér fyrir miklum áhuga og stemmingu um land allt sem ég býst bara við að haldi áfram,“ segir Áslaug spurð hvort nú fari að færast meiri hiti í leikinn.
Áslaug sem sjálf er á ferð um landið til að kynnast flokksmönnum var stödd á Reyðarfirði er blaðamaður náði tali af henni og kvaðst finna fyrir miklum áhuga víða.
„Ég held að þessi kraftur muni halda áfram að aukast með því að fólk fái að velja á milli tveggja kvenna til forystu í Sjálfstæðisflokknum,“ segir Áslaug.
„Þetta er söguleg staða en ég held að fólk horfi líka á okkur sem ólíka einstaklinga og sé að velja sér forrystumanneskju til að leiða flokkinn næstu skref.“
Hvað telur þú að þú hafir fram yfir Guðrúnu í þessum slag?
„Við erum ólíkar að mörgu leyti en ég ætla ekki að tala mig út um það heldur leyfa flokksmönnum að hlusta á okkur og eiga við okkur samtal og finna kraftinn í okkur báðum. Guðrún er flottur stjórnmálamaður og ég hlakka til að vinna með henni sama hvernig það verður að loknum landsfundi.“