Í Hafnarfirði býr stórleikarinn góðkunni Sigurður Sigurjónsson, betur þekktur einfaldlega sem Siggi Sigurjóns. Sigga þarf vart að kynna; hann hefur brugðið sér í hin ýmsu hlutverk og skemmt áhorfendum í Þjóðleikhúsinu og kvikmyndahúsum, sem og þeim sem heima sátu og hlógu sig máttlaus yfir Spaugstofunni. Hæfileikar hans á sviði leiklistar komu snemma í ljós þótt hann dreymdi aldrei um ævistarf sem leikari. En örlögin leiddu hann saman við leiklistargyðjuna og það varð ekki aftur snúið. Nú stendur Siggi á tímamótum þar sem hann verður sjötugur á árinu og samkvæmt venju þarf hann að hætta á samningi. Siggi kvíðir þó ekki framtíðinni og er ekkert hættur að leika, enda leynast tækifærin oft handan við hornið.
Siggi hefur verið viðloðandi Þjóðleikhúsið í fimmtíu ár, þótt hann hafi komið víða við og leikið líka annars staðar.
„En Þjóðleikhúsið er minn heimavöllur, algjörlega. Þar byrjaði ballið og þar á ég mínar rætur. Ég hef verið þar eins og grár köttur öll þessi ár. Þótt ég vinni þarna og þekki hvert rykkorn, þá er alveg magnað að þegar ég er áhorfandi þá er ég ekki lengur á mínum vinnustað. Ég næ alveg að lifa mig inn í leikritið eins og óbreyttur borgari,“ segir Siggi.
Hvað stendur upp úr þegar þú horfir til baka?
„Það sem stendur upp úr er kannski fjölbreytileikinn; að fá að fást við svona ólíka hluti. Ég hef leikið, leikstýrt og verið í hugmyndavinnu, leikið á sviði, í bíói og sjónvarpi. Ég hef prófað ýmislegt en lít fyrst og fremst á mig sem leikara. Svo hafa rullurnar verið svo ólíkar. Það er haf og himinn á milli sumra persóna; allt frá grínpersónum yfir í dramatísk hlutverk. Þetta er dálítið merkilegt.“
Manstu eftir einhverju skemmtilegu sem gerðist óvænt?
„Það gerist endalaust eitthvað óvænt. Auðvitað gleymir maður stundum línum, þess vegna heilu blaðsíðunum. Þá þarf maður að reiða sig á meðleikarann. Það er martröð sem allir leikarar upplifa. En þetta hefst yfirleitt með góðri samvinnu.“
Hefurðu leikið í einhverjum leiðinlegum leikritum?
„Alveg fullt af þeim. Ég hef leikið í leiðinlegum leikritum og sýningum sem hafa alls ekki lukkast. En ef ég lít til baka þá hef aldrei upplifað neitt annað en að allt leikhúsfólk sé alltaf að gera sitt allra allra besta. En stundum hittum við ekki naglann á höfuðið og það eru margar ástæður fyrir því. Það er bara partur af þessu og það verður aldrei breyting á því. Við munum aldrei framkvæma hina fullkomnu list á hverjum degi. Við verðum að taka áhættu og ættum í raun að gera meira af því, því það er það sem fleytir okkur áfram, að þora að gera mistök. Þetta gildir um listir og vísindi; það verður að gera tilraunir. Og íslenskir áhorfendur eru til í tuskið og eru með okkur og fyrirgefa okkur. Þá er bara að gera betur næst.“
Sjötugsafmælið nálgast óðfluga og þá þarf Siggi að hætta á samningi hjá Þjóðleikhúsinu.
„Ég er ríkisstarfsmaður og má ekki vinna lengur en til sjötugs á föstum samningi, en má alveg taka að mér verkefni. Þetta eru mikil kaflaskil í mínu lífi og ég staldra alveg við þetta. Ég væri að ljúga ef ég segði að ég hugsaði ekki um þetta,“ segir Siggi og segir tilfinningarnar blendnar.
„Ég á nóg af áhugamálum, frábæra fjölskyldu og vini. Ég er heppinn og ég er hraustur,“ segir Siggi, en hann á þrjú börn með eiginkonunni Lísu Harðardóttur og barnabörnin eru orðin sjö.
„Lísa er farin á eftirlaun þannig að hún er að bíða eftir mér og vill örugglega fá mig meira heim,“ segir Siggi, en vinnutími leikarans er auðvitað mikið á kvöldin og um helgar.
„Fjölskyldan aðlagaðist því að ég væri að vinna á þessum tímum. Það eru auðvitað forréttindi að fá að vinna við ástríðuna sína. Í næsta mánuði er ég að leika kannski tuttugu kvöld, sem er ansi mikið,“ segir Siggi, en hann er að leika í nýju leikriti Hrafnhildar Hagalín, Heim, sem frumsýnt er um helgina. Heim er lýst sem launfyndnu fjölskyldudrama beint úr íslenskum samtíma um það sem kraumar undir niðri.
„Þetta er frábært leikrit um fjölskyldu og er drama en spaugilegt á köflum. Þetta er um alls konar hluti sem eru undir yfirborðinu,“ segir Siggi og vill ekki gefa meira upp.
„Svo er ég líka að leika í mjög skemmtilegri sýningu sem heitir Eltum veðrið og er mikið grín. Við bjuggum þetta til og erum að fá alveg svakalega góð viðbrögð. Það hefur verið uppselt langt fram í tímann og fólk virðist skemmta sér vel. Þetta er svo nærandi fyrir okkur,“ segir Siggi og segir ekki veita af skemmtun í skammdeginu eða á hvaða tíma árs sem er.
„Svo er framtíðin óskrifað blað. Ég er með fimmtíu ára feril að baki og það verður víst ekki af manni tekið. Ég lít ekki mikið aftur fyrir mig heldur horfi frekar fram á við og ef guð lofar er eitthvað eftir. Þjóðin hefur tekið vel á móti mér og hvatt mig til dáða. Ég er enn með ástríðu fyrir starfinu og tel að ég eigi eitthvað eftir. Það þurfa líka að vera til fullorðnir leikarar og margt í boði í dag sem ekki var til í gamla daga, eins og allar sjónvarpsseríurnar. Ég hef ekki áhyggjur af þessum kaflaskilum. Ég er stoltur af mjög mörgu og segi fyrir sjálfan mig: ég gerði mitt besta.“
Ítarlegt viðtal er við Sigga Sigurjóns í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.