Hönnun og tíska hefur alltaf verið mín ástríða,“ segir Margrét Arna Hlöðversdóttir, ávallt kölluð Gréta, framkvæmdastjóri og einn stofnenda íslenska hönnunarfyrirtækisins As We Grow og lögfræðingur. As We Grow er í nánu samstarfi við framleiðendur í Perú, en þar er langstærsti hluti alpaca-ullarinnar framleiddur. Fyrirtækið fékk nýverið styrk úr Heimsmarkmiðasjóðnum til þess að valdefla konur í Perú.
„Fyrstu árin þróuðum við barnaföt því okkur fannst vanta föt sem myndu endast lengur. Það var prjónapeysa í fjölskyldunni sem varð okkur innblástur, en sú peysa gekk á milli barna í tíu ár, og jafnvel á milli landa,“ segir Gréta.
„Við sáum að til þess að flík gæti enst svona lengi þyrfti hún að vera tímalaus hönnun, úr góðum efnum og geta vaxið með barninu. Við þróuðum því stærðir sem voru öðruvísi en algengt er, eins og stærðina 6 til 18 mánaða, og með því gæti barnið notað flíkina lengur. Við vildum að flíkurnar okkar myndu geta gengið á milli fólks, alveg eins og peysan úr fjölskyldunni,“ segir hún.
„Fyrir nokkrum árum bættum við svo við kvenfatalínu sem nú er að stækka, og eins erum við með peysur á karlmenn, auk húfa og trefla fyrir bæði kyn. Kvenfatalínan hefur gengið mjög vel og til að mynda gengur forsetinn okkar, Halla Tómasdóttir, í okkar fötum og er stolt af því, enda eru flíkurnar okkar úr hundrað prósent náttúrulegum efnum og íslensk hönnun.“
„Við höfum frá upphafi verið í mjög góðu sambandi við framleiðendur okkar í Perú, en margar af vörum okkar eru úr alpaca-ull,“ segir hún og nefnir að einnig sé eitthvað framleitt í Portúgal.
„Af hverju alpaca-ull en ekki íslensk ull?
„Þegar við fórum af stað fannst okkur alpaca-ullin alveg kjörin fyrir börn af því hún er svo mjúk. Lamadýrin búa í fjögur þúsund metra hæð í Andesfjöllunum þar sem er kalt á næturnar og heitt á daginn. Ullin andar; hún er eins og silki í hita en eins og gæsadúnn í kulda. Svo er ullin af ungum dýrum bæði ofnæmis- og kláðafrí, sem okkur fannst fullkomið fyrir börn,“ segir Gréta.
As We Grow fékk nýlega styrk frá Heimsmarkmiðasjóðnum, en markmið hans er að hlúa að samstarfsverkefnum sem efla sjálfbæran hagvöxt. Verkefnið er til þriggja ára og styður við fátækar konur í Perú.
„Við erum í samstarfi við fimmtíu perúskar konur sem eru í handprjóni og við erum líka að vinna með öðrum hópi af konum í litlu þorpi. Við erum að læra alveg helling um meðferð alpaca-ullarinnar. Við erum nú byrjaðar að skipuleggja ferð nokkurra kvennanna til Íslands á námskeið,“ segir Gréta, en vörurnar hjá As We Grow eru ýmist handprjónaðar eða prjónaðar í vélum.
„Hugmyndin er að við þróum vörur saman; við erum ekki að láta þessar konur bara prjóna fyrir okkur. Við erum að gera þetta saman.“
Ítarlegt viðtal er við Grétu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.