„Vindar frelsis fái að leika um samfélagið“

Guðrún Hafsteinsdóttir, fer í formannsframboð.
Guðrún Hafsteinsdóttir, fer í formannsframboð. mbl.is/Ólafur Árdal

Guðrún Hafsteinsdóttir segir að mæting á fund þar sem hún kynnti framboð sitt til formanns Sjálfstæðisflokksins hefði verið framar væntingum.

„Ég vildi koma hingað í Kópavoginn til að kynna framboð mitt því þó ég sé að sjálfsögðu þingmaður Suðurkjördæmis þá er það kjördæmi svolítið tvískipt á milli Suðurlands og Suðurnesja og Kópavogur er mitt á milli.“

Hún segir að hún hafi fengið hvatningu hvaðanæva að á landinu um að bjóða sig fram.

„Ég hef verið mjög auðmjúk yfir því og tók þetta til ígrundaðrar skoðunar og býð mig fram sem sameinandi afl fyrir flokkinn.“

Megi ekki hverfa frá sínum grunngildum 

Hún segir að hún muni hafa grunngildi Sjálfstæðisflokksins um frelsi einstaklingsins og þjóðarinnar að leiðarljósi.

„Um að einkaframtakið fái alltaf að njóta og að vindar frelsis fái að leika um samfélagið. Minni ríkisafskipti og að fólk stjórni sér sjálft. Minna ríki og meira frelsi,“ segir Guðrún.

Hún segir að Sjálfstæðisflokkurinn megi ekki hverfa frá sínum grunngildum sem endurspeglist í að flokkurinn standi fyrir stétt með stétt og sé ekki elítuflokkur.

„Töluvert eldri en hún“ 

Hvað finnst þér þú hafa fram yfir Áslaugu í þessum formannsslag?

„Ég er töluvert eldri en hún, það liggur í augum uppi. Ég hef allt annan bakgrunn. Hef verið í áratugi í atvinnulífinu en einnig tekið að mér trúnaðarstörf. Ég var lengi formaður Samtaka iðnaðarins, varaformaður Samtaka atvinnulífsins, starfaði fyrir lífeyrissjóðina, verið í stjórn HR og í fleiri stjórnum. Ég hef alla tíð hrærst í atvinnulífinu og ég fór út í pólitík fyrir þremur árum því mér fannst sjónarmið atvinnulífsins á því hvernig við byggjum upp velferð skorta á Alþingi Íslendinga. Ég mun alltaf beita mér fyrir því að Ísland sé í fremstu röð á meðal þjóða og að hér sé kröftugt atvinnulíf sem við getum byggt okkar velferð á,“ segir Guðrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert