Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, segist ekki getað séð að dómur Félagsdóms hafi nokkur áhrif á boðuð verkföll í fimm framhaldsskólum á landinu.
Þetta segir í skriflegu svari Guðjóns við viðtalsbeiðni blaðamanns mbl.is.
„Félag framhaldsskólakennara er að sjálfsögðu að rýna þessa niðurstöðu en við fyrstu sýn sjáum við ekki að hann hafi nokkur áhrif á boðuð verkföll í framhaldsskólum,“ segir Guðjón í svari sínu.
Verkföll hefjast því að óbreyttu þann 21. febrúar í Menntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Borgarholtsskóla, Verkmenntaskóla Austurlands og Fjölbrautaskóla Snæfellinga, að því gefnu að samninganefndir kennara og ríkis nái ekki saman fyrir þann tíma.
Félagsdómur dæmdi í dag verkföll Kennarasambands Íslands í þrettán leikskólum og sjö grunnskólum víða um land ólögmæt.
Verkfall KÍ í Snæfellsbæ er ekki dæmt ólögmætt þar sem allir félagsmenn leikskólakennara greiddu atkvæði í því sveitarfélagi um verkfallið.