Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista í Reykjavík, segir fólk vera að tala saman. Enn sem komið er hafi þó ekki verið boðað til fundar á vinstri væng stjórnmálanna upp á myndun nýrrar stjórnar.
Sósíalistar og Vinstri græn sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem tilkynnt var að flokkarnir væru í bandalagi. Sanna segir það ekki hafa breyst.
„Nú eru allir að heyra í sem flestum en ekkert sem hægt er að segja frá á þessari stundu,“ segir Sanna.
Einn möguleiki í stöðunni í borginni er hrein vinstri stjórn með aðkomu Sósíalista, VG, Flokks fólksins, Samfylkingar og Pírata.
Hún segist ekki upplifa það sem sé í gangi sé æsilegt. Lítur hún svo á að fólk sé að vanda sig.
„Mér finnst hins vegar æsilegt að sjá frásagnir borgarstjóra um stjórnarslitin. Mér fannst þetta virka ómálefnalega sett fram varðandi stjórnarslitin. Manni finnst eins og frásagnir hans af slitunum séu ósennilegar og maður spyr sig hvort að staða hans og staða hans flokks í könnunum hafi haft áhrif. Og þá hvort hann hafi verið að hugsa um sína persónulegu hagsmuni fram yfir þá heild sem hann var hluti af,“ segir Sanna.