Sigmundur: Samfylkingin í sömu stöðu og Bláa lónið

Sigmundur sagði heiminn breyttan, eðlisfræðin og raunveruleikinn séu allt öðruvísi …
Sigmundur sagði heiminn breyttan, eðlisfræðin og raunveruleikinn séu allt öðruvísi en áður, „af því að Flokkur fólksins er kominn í ríkisstjórn!“ mbl.is/Eyþór

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir að eftir sjö erfið ár með kerfisstjórn, sem státaði sig af því að vera „ópólitísk“, hafi kviknað von fyrir landsmenn þegar hið óhjákvæmilega gerðist loksins.

Í staðinn hafi landsmenn þó fengið nýja og jafnvel enn meiri kerfisstjórn.

Þetta kom fram í andsvari hans við stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld.

Sagði hann systurflokkana Viðreisn og Samfylkinguna hafa verið ákveðna í að mynda saman stjórn „hvað sem það kostaði“, þá hafi bara vantað einn „makker“, og Flokkur Fólksins hafi ekki beðið um mikið.

Kosningaloforð út í veður og vind

„Svipað og Kalli í sögunni um Kalla og sælgætisgerðina vildi flokkurinn bara fá að vera með, sjá hvernig nammið væri framleitt og kannski fá að smakka. Stóru kosningaloforðin fuku út í veður og vind. Útskýrt var að ekki yrði staðið við 450.000 krónur fyrir alla, skatta og skerðingalaust, enda hefði flokkurinn ekki fengið meirihluta þingmanna. Þetta hefði mátt koma fram fyrir kosningar, svona fyrir fólkið, kjósendur sem studdu Flokk fólksins, en taldist líklega skaðleg hreinskilni á þeim tímapunkti,“ sagði Sigmundur í ræðustól.

Tók hann þá dæmi um ósamkvæmni milli orða og athafna Flokks fólksins. Meðal annars benti hann á að áformuð sala á afgangnum af hlut ríkisins í Íslandsbanka hefði verið stórkostlegt hneyksli að mati formanns Flokks fólksins, sem hefði útskýrt að til stæði að drepa og grilla gullgæsina.

Það hafi breyst um leið og formaðurinn settist í ráðherrastól. Þá hafi verið gripið í það hálmstrá að söluheimildin hafi komið fram í nýjustu fjárlögum síðustu stjórnar.

„Vissi hinn nýi ráðherra ekki að heimild til sölu bæði Íslands- og Landsbanka hafa verið í fjárlögum árum saman?“

„Kalla líður vel í sælgætisgerðinni“

Sigmundur sagði heiminn breyttan, eðlisfræðin og raunveruleikinn séu allt öðruvísi en áður, „af því að Flokkur fólksins er kominn í ríkisstjórn!“

„Kalla líður vel í sælgætisgerðinni en Viðreisn og Samfylkingin mættu hafa það í huga að sagan endaði með því að Kalli tók stjórn á verksmiðjunni.“

Þá sagði Sigmundur Viðreisn hafa tekið að sér hlutverk nokkurs konar upplýsingafulltrúa Flokks fólksins. Það hafi verið heppilegt fyrir flokkinn, „því það vildi svo til að fjármálaráðherra Viðreisnar hafði líf Flokks fólksins í hendi sér“.

„En auðvitað var það ekki aðalmálið hjá Viðreisn. Það vita allir. Allir vissu hvað væri aðalmálið hjá Viðreisn, þótt það hafi ekki mátt nefna það fyrir kosningar.“

„Planið er horfið“

Sigmundur sagði það helst að frétta af Samfylkingunni að hún sé nú lent í sömu stöðu og Bláa lónið.

„Planið er horfið. Og áður en sjálf stefnuræðan var loksins haldin, nötrar allt og skelfur í borgarmálunum einu sinni sem oftar. Það hlýtur að vera einhvers konar Íslandsmet að stjórnarsamstarf komist í uppnám áður en það byrjar.“

Málin snúist að öðru leyti aðallega um að þekktustu leikararnir í leikhúsi Samfylkingarinnar hafi verið gerðir að aukaleikurum og síðan breytt í statista.

„En þrátt fyrir að forsætisráðherra hafi sagt okkur frá því því í ræðu sinni að hann hafi heimsótt „fólkið á gólfinu“, eins og það var orðað, þá gleymir forsætisráðherra ekki Flokki fólksins.“

„Fram undan eru áhugaverðir tímar“

Sigmundur sagðist hafa hlustað á margar stefnuræður forsætisráðherra, skrifað þær nokkrar og lesið enn aðrar.

„En ég hef aldrei heyrt forsætisráðherra ljúka stefnuræðu, hvað þá þeirri fyrstu, á að réttlæta það sérstaklega, í löngu máli, að einn af forystumönnum ríkisstjórnarinnar skuli vera í ríkisstjórninni!“

Enda hafi verið tilkynnt um leið og ríkisstjórnin kynnti málaskrá sína að allir stjórnarþingmenn yrðu reknir í réttirnar og á sameiginlegan vikulegan fund svo allir viti til hvers er ætlast.

„Það er ef til vill skiljanlegt að þannig eigi nú að smala köttunum. Gömlu stjórnarflokkarnir fóru á einn sameiginlegan fund á Þingvöllum, það breytti engu.“

„En ég óska þó nýkjörnum þingmönnum til hamingju með kjörið og ítreka hamingjuóskir til ríkisstjórnarinnar og góðs gengis í öllum góðum málum. Ekki mun þó standa á Miðflokknum að halda ríkisstjórninni við efnið. Fram undan eru áhugaverðir tímar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert