Þórdís Kolbrún: Endurspegli reynsluleysi

Þórdís sagði áhugavert fyrir sig, eftir sjö ára setu í …
Þórdís sagði áhugavert fyrir sig, eftir sjö ára setu í ríkisstjórn að heyra um svokallað nýtt verklag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokks, var tíðrætt um nýtt verklag í ríkisstjórn Íslands í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld.

Sagði hún áhugavert fyrir sig, eftir sjö ára setu í ríkisstjórn að heyra um svokallað nýtt verklag.

Þórdís benti þingheimi á að það væri ekki nýtt verklag að gengið sé inn í ráðuneyti án þess að spyrja hvernig hlutirnir hafi verið unnir þar og vísaði til orða forsætisráðherra þar um.

Þá sagði Þórdís ekki heldur nýtt verklag að forsætisráðherra fundi einslega með öllum ráðherrum til að undirbúa þingstörf.

„En það væri vissulega nýjung ef rétt reynist að það sé full eining í meirihlutanum um öll þau 107 mál sem birtast í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og eiga að skila sér til þingsins á næstu sjö vikum. Ég held reyndar að það verði ekki alveg þannig,“ sagði Þórdís.

Þeir vildu ekki hafa kóng

Þórdís sagði ekkert af því sem Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra vísaði til í stefnuræðu sinni sem nýju verklagi vera það í raun og veru heldur eitthvað sem endurspegli helst reynsluleysi það sem ný ríkisstjórn þurfi að glíma við.

Fyrrverandi utanríkisráðherrann, Þórdís Kolbrún, sagðist hafa saknað þess í stefnuræðu forsætisráðherra að alvarleikinn í utanríkismálum birtist í ræðunni og sterkari skoðun forsætisráðherra á því hver verkefnin framundan séu.

Þórdís Kolbrún gerði stöðu stjórnmálanna í Bandaríkjunum að umtalsefni og benti á að stjórnarskrá Bandaríkjanna hafi verið uppfull af margvíslegum aðferðum til þess að tryggja að ólíkir þræðir ríkisvaldsins hefðu fullkomið sjálfstæði frá hver öðrum, hefðu getu til þess að veita hver öðru aðhald og gætu gripið í taumana ef í óefni stefndi.

„Því þótt þeir sem stofnuðu Bandaríkin hafi ekki verið sammála um alla hluti - þá voru þeir sammála um eitt. Þeir vildu ekki hafa kóng.“

Forsætisráðherra en ekki verkefnastjóri

„Frelsið tapast sjaldan allt í einu,“ sagði Þórdís. Hún ræddi grundvöll lífskjara okkar og lífsgæða sem sé ekki sjálfgefinn.

„Að varðveita jarðveg frelsis og halda í skefjum þeim öflum sem vilja spilla honum, hvort sem það er í formi utanaðkomandi ógnar, freklegra stjórnvalda eða ægivalds ofstækis eða hagsmunafla, er verkefni okkar allra, borgaranna, atvinnulífsins, fjölmiðla, háskólasamfélagsins.“

Sagði hún að augu okkar þurfi að vera opin, því mun fleiri en stjórnvöld í örfáum einræðisríkjum vilji takmarka frelsi okkar.

„Hagsmunir stórra ríkja, stórra stofnana og stórra fyrirtækja er ekki alltaf vel hægt að samræma við frelsi, hamingju og borgaralegt sjálfstæði einstaklingsins.“

Að lokum sagði Þórdís Kolbrún að ríkisstjórnin muni dæmast af verkum sínum og benti á að hlutverk forsætisráðherra sé öðru fremur að leiða þjóðina, marka spor og vera framsýn en ekki að vera í hlutverki verkefnastjóra.

„Ég vona að hæstvirtum forsætisráðherra og ríkisstjórninni gangi vel. Nú reynir á,“ sagði Þórdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert