Ábyrgðin liggi líklega hjá Vegagerðinni

„Þeir sem urðu fyrir tjóni áður en það var búið …
„Þeir sem urðu fyrir tjóni áður en það var búið að tilkynna, þannig að Vegagerðin gat gert ráðstafanir, geta ekki gengið að því vísu að það tjón sé bætt,“ segir Runólfur vegna sprung­inna dekkja og fleiri skemmda á bíl­um á Hell­is­heiðinni. mbl.is/Sigurður Bogi

Djúp­ar og mikl­ar hol­ur á Hellisheiðinni hafa komið öku­mönn­um í opna skjöldu síðustu daga og leitt til sprung­inna dekkja og fleiri skemmda.

Tilkynning um aðstæður var send til Vegagerðarinnar með nægum fyrirvara, því hefði mátt bregðast fyrr við með viðvörunum eða öðrum aðgerðum á staðnum. Ábyrgðin liggur þannig líklega hjá veghaldara.

Þetta segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, í samtali við mbl.is.

Aðspurður hvort ökumenn geti fengið tjónið bætt segir Runólfur að skoða þurfi hvert tilvik fyrir sig.

„Þeir sem urðu fyrir tjóni áður en það var búið að tilkynna, þannig að Vegagerðin gat gert ráðstafanir, geta ekki gengið að því vísu að það tjón sé bætt.“

Merkingar á staðnum nauðsynlegar

Runólfur segir ábyrgð veghaldara byggja á því að um leið og veghaldari veit að það er eitthvað mikið að í veginum, verði hann að bregðast við með eins skjótum hætti og hægt er.

„Það er allavega um að gera að kanna rétt sinn, senda inn tilkynningu,“ segir hann.

„Þetta byggir á því hver viðbrögð veghaldara voru og ef veghaldari mátti vita að þarna væri þetta ástand þá auðvitað bregst hann við. Það er ekki eins og Vegagerðin hafi ekki upplýsingar og þekkingu á því að við þessar aðstæður er mjög líklegt að eitthvað svona geti gerst.“

Léttvæg viðvörun

Vega­gerðin varaði við því á um­ferðar­vef sín­um í morg­un að slæmar holur væru á Hell­is­heiðinni, veg­far­end­ur voru í fram­hald­inu beðnir að aka með gát.

En ef Vegagerðin varar við ástandinu á vef sínum?

„Já það er kannski frekar léttvæg viðvörun, af því að almenningur er ekki almennt inni á vef Vegagerðarinnar. Það þarf þá einhvern veginn að fara út með einhverjar víðtækari auglýsingar en aðallega að fara á staðinn og setja upp merkingar.“

Það hefur þá ekki verið gert í þessu tilfelli?

„Nei allavega hafi það verið gert þá var það gert að einhverju leyti mögulega of seint. Þá myndast ábyrgð hjá veghaldara.“

Þannig að ábyrgðin liggur líklegast hjá Vegagerðinni?

„Já í hluta af málunum allavega, þegar Vegagerðinni var orðið kunnugt um að þarna væri hvarf í vegum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert