„Ætli ég fái ekki þessa viku í hveitibrauðsdaga“

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari rekur Heimi Má Péturssyni rembingskoss í Karphúsinu …
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari rekur Heimi Má Péturssyni rembingskoss í Karphúsinu fyrir tveimur árum eftir að Heimir hafði lagt sitt lóð á vogarskálar þess að aðilar vinnumarkaðarins náðu saman um að fresta verkfalli og verkbanni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimir Már Pétursson, fréttamaðurinn kunni, sem söðlað hefur um og ráðið sig sem framkvæmdastjóra og upplýsingafulltrúa þingflokks Flokks fólksins, segir ráðninguna hafa borið nokkuð snöggt að.

„Mér bauðst þetta starf og það var í sjálfu sér ekkert langur fyrirvari á því. Ég hugsaði málið í örfáa daga og ákvað síðan að láta slag standa.“

Heimir lauk BA-prófi í stjórnmálafræði og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands árið 1989 og á að baki langan feril í blaða- og fréttamennsku. Ferillinn hófst á Þjóðviljanum sáluga en lengst af starfaði hann á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar sem síðar varð fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar.

Heimir hefur einnig gegnt stöðu verkefnastjóra, upplýsingafulltrúa og framkvæmdastjóra hér og þar í atvinnulífinu og meðal annars var hann einn af fáum stofnendum Hinsegin daga í Reykjavík árið 1999 og framkvæmdastjóri þeirra fyrstu 11 árin.

Þá er hann ekki ókunnugur störfum innan stjórnmálanna en á árunum 1996 til 1999 var Heimir framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins.

Boðin framkvæmdastjórastaða í miðju viðtali

Hafandi starfað fyrir stjórnmálaafl áður, hafði það togað í þig að færast nær stjórnmálum á ný og koma að þeim frá öðrum vinkli?

„Ég var nú að vinna á Stöð 2 einmitt þegar Margrét Frímannsdóttir hesthúsaði mig í miðju viðtali í að verða framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins,“ segir Heimir og rifjar upp skemmtilega sögu af þeim vistaskiptum.

„Hún var þá nýorðinn formaður og eftir að hafa mætt í morgunþátt Bylgjunnar var ég að taka við hana viðtal um það hvort hún væri búin að finna nýjan framkvæmdastjóra en framkvæmdastjóri flokksins, Einar Karl Haraldsson, var hættur.“

Það vakti mikla athygli þegar Einar Karl hætti störfum fyrir Alþýðubandalagið en hann hafði starfað með Ólafi Ragnari Grímssyni í mörg ár.

„Fjölmiðlum lá mikið á að vita hver tæki við af Einari. Ég notaði tækifærið á snemmmorgunvakt á Bylgjunni, þegar Margrét kom eldsnemma í þetta viðtal, til að reyna að hesthúsa eitthvað fréttaviðtal frá henni. 

Þá sagði hún: „Vilt þú ekki bara taka þetta að þér?“. Ég tók það nú ekki alvarlega og sagði henni að vera ekki að stríða mér með þetta og að við skyldum bara byrja aftur. Ég byrjaði viðtalið aftur og hún endurtók sama svarið.

Það varð svo úr að nokkrum dögum síðar varð ég orðinn framkvæmdastjóri í Alþýðubandalaginu,“ segir Heimir frá.

„Heilinn verður líka að fá sína leikfimi“

Heimir Már var hann einn af fáum stofnendum Hinsegin daga …
Heimir Már var hann einn af fáum stofnendum Hinsegin daga í Reykjavík árið 1999 og framkvæmdastjóri þeirra fyrstu 11 árin. Ljósmynd/Aðsend

Heimir Már segir aðspurður auðvitað erfitt að kveðja vinnustað sem honum þyki mjög vænt um. Hann sé búinn að starfa á miðlum Sýnar samanlagt í rúm 25 ár frá árinu 1991.

„Ég hef kynnst mörgu frábæru fólki og auðvitað er erfitt að yfirgefa góða samstarfsfélaga og starf sem manni þykir vænt um.“

Segir hann að sér hafi liðið mjög vel á fréttastofunni þar sem farið hafi verið ákaflega vel með hann og hann fengið að gera nokkurn veginn það sem honum hafi sýnst og langað til.

„Kannski var það erfiðasta við að taka þessa ákvörðun einmitt að hverfa af þessum vettvangi sem mér er mjög kær,“ segir Heimir og bætir því við að kannski sé ágætt að skipta um starf á 25 ára fresti og verða ekki of heimakær þar sem maður sé.

„Svo auðvitað bara að takast á við nýjar áskoranir. Heilinn verður líka að fá sína leikfimi. Maður má ekki festast í einhverri rútínu, sérstaklega þegar maður er aðeins kominn á aldur. Maður verður að láta heilann fá einhverjar áskoranir.“

Segir Heimir gaman að geta lagt Flokki fólksins lið og sömuleiðis áskorun. Flokkurinn sé í stjórnarsamstarfi í nýrri ríkisstjórn sem sé að takast á við alls konar verkefni.

Þekkir Alþingi fyrir tíma internetsins

Heimir Már segir stjórnmál í víðum skilningi hafa verið áhugamál hans allt frá unglingsaldri. Þá hafi hann verið þingfréttaritari á Þjóðviljanum sáluga frá 1988 og segist því þekkja Alþingi fyrir tíma internetsins, rafræns atkvæðagreiðslukerfis og viðbygginga en geri sér jafnframt grein fyrir að margt hafi breyst á síðustu árum og áratugum.

„Auðvitað hef ég þessa reynslu frá þessum þremur árum sem ég var hjá Margréti Frímannsdóttur. Ég aðstoðaði hana við að sameina þessa fjóra flokka í einn sem varð síðar Samfylkingin.

Þegar því var lokið, við kosningarnar 1999, hætti ég hjá Alþýðubandalaginu og hef ekki komið nálægt almennu stjórnmálavafstri síðan þá,“ segir hann.

Heimir hefur formlega hafið störf nú þegar hjá þingflokknum en segir það koma til með að taka einhvern tíma að setja hann inn í öll kerfi og annað þess háttar.

Til að lýsa störfum sínum fyrstu vikuna notar hann tækifærið og vísar til til ákveðins tískuorðs í stjórnmálaumræðu undanfarinna daga og vikna.

„Ætli ég fái ekki þessa viku í hveitibrauðsdaga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert