Hafnar kenningum um afskipti af borgarmálum

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eyþór

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hafnar því að hún hafi þrýst á samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn um að binda enda á meirihlutaviðræður Flokks fólksins og Sjálfstæðisflokksins í borginni.

Hún gengst við því að hafa rætt við Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, um vendingarnar í borginni um helgina, en segir það eðlilegt, enda ræði þær saman daglega.

Ekkert óeðlilegt sé við það að þær ræði svona hluti þegar þeir komi upp.

Hafi fengið blessun Ingu

Til tíðinda dró á föstudag þegar Einar Þorsteinsson borgarstjóri sleit samstarfi meirihlutans í borginni. Meirihlutaviðræður milli Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar, Viðreisnar og Flokks fólksins hófust strax sama dag.

Einar gaf til kynna í viðtali við Sprengisand um helgina að þátttaka Flokks fólksins í viðræðunum hefði notið blessunar Ingu.

Ríkisútvarpið greindi þó frá því á laugardag að Inga Sæland segði flokkinn sinn ekki myndu taka þátt í að leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda í borginni.

Kenningar eru um að Kristrún hafi skorist í leikinn og lagt hart að samstarfsflokkum sínum, að taka ekki þátt í samstarfi með sjálfstæðismönnum. Hún hafnar því þó.

Tímasetningin óheppileg

Áttir þú í einhverjum samskiptum við Ingu Sæland eftir að í ljós kom að meirihlutinn í borginni væri sprunginn?

„Ég átti auðvitað í samskiptum við hana enda tölum við Inga saman á hverjum einasta degi. Ég tala við oddvita ríkisstjórnarinnar nær daglega og það er ekkert óeðlilegt við að við ræðum saman þegar svona hlutir koma upp,“ segir Kristrún í samtali við mbl.is. 

„Fólk hefur auðvitað áhyggjur af tímasetningu þessarar stöðu, eða þessara breytinga, vegna þess að það hafa verið í gangi kjarasamningagerð við leik- og grunnskóla og það eru ýmis málefni sem eru uppi þannig að við auðvitað ræddum þessi málefni.“

Gerðir þú einhvern tímann kröfu um að Flokkur fólksins færi ekki í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum í borginni – eða eitthvað á þá leið?

„Nei, enda er það ekki mitt að gera kröfu um hvað aðrir flokkar gera. Það eru fyrst og fremst borgarfulltrúar allra þeirra flokka sem sitja þarna og eru að tala sín á milli. Ég held að félags- og húsnæðismálaráðherra hafi verið skýr um það hvaðan hennar skoðun kom á þessu máli. Hún er með öflugt bakland, grasrót. Enda er það ekki mitt að ákveða fyrir aðra flokka, eða formenn aðra flokka, hvernig þeir vilja haga sér í þessum viðræðum.“

Hennar að taka ákvörðun

Aðspurð segist hún einnig hafa rætt við oddvita Samfylkingarinnar í borginni. 

„Ég ræði bara mjög reglulega við oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík. Ég ræði líka mjög reglulega við fólk úr Samfylkingunni víðs vegar um landið í sveitarstjórnunum. Þetta er auðvitað staða sem hefur áhrif á stöðu Samfylkingarinnar og þess vegna töluðum við saman um þessar vendingar um helgina.“

Hefur þú verið leiðbeinandi í myndun nýs meirihluta?

„Ég treysti oddvita Samfylkingarinnar í borginni fullkomlega til þess að hreyfa sig rétt í þessu máli. Þetta er fyrst og fremst í hennar höndum en ég er auðvitað formaður Samfylkingarinnar og við ræðum ýmis mál okkar á milli sem er mjög eðlilegt í svona aðstæðum. En það er hennar að taka ákvörðun og leiða sinn borgarstjórnarflokk og ég treysti henni Heiðu alveg fullkomlega til þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert